Að mæla heiminn út frá sjálfum sér

Góður vinur sagði mér einu sinni að þeir sem höguðu sér eins og óhemjur í kosningabaráttu væru ekki frambjóðendur heldur makar frambjóðenda. Þannig getur yfirvegaðasta fólk misst sig, þegar makinn fer í framboð. Þetta rifjaðist upp fyrir  mér þegar ég las pistil Dóra DNA í Kjarnanum í dag. Hann hefur verið duglegur að skrifa um önnur framboð og hvað þau séu bjánalega fótósjoppuð eða hversu mikið þau hafa  eytt í kosningabaráttunni. Aldrei hef ég lesið málefnalegan pistil eftir Dóra um stefnu framboðanna eða hugmyndafræði þeirra. Honum finnst greinilega skemmtilegra að fjalla um einstaka stjórnmálamenn frekar en það sem þeir standa fyrir. Í grein sinni í dag er hann á svipuðum nótum og hann hefur áður verið, þó með þeirri undantekningu að hann sakar okkur í Vg um atkvæðakaup með framsóknarloforðum. Hann gefur sér einhverjar órökstuddar forsendur og það er greinilegt á máli hans að hann hefur hvorki kynnt sér tillögur okkar né sett sig inn í hugmyndafræðina á bak við þær. En kannski er það mistúlkun hjá mér. Kannski er hann bara ósammála okkur. Kannski er hann bara þeirrar skoðunar að menn eigi að borga fyrir þá þjónustu sem þeir þiggja – sama hver hún er. Kannski er hann bara frjálshyggjumaður en eins og kunnugt er þá segist Björt framtíð ekki vera jafnaðarmannflokkur heldur „frjálslyndisflokkur“. Og hægri slagsíðan er augljós. Það myndi a.m.k. útskýra andúð þeirra á að gera menntun við börn gjaldfrjálsa. Flestir frjálshyggjumenn eru einmitt þeirri gæfu aðnjótandi að vera í einhvers konar valdastöðu í samfélaginu, hafa efni á að halda sér og sínum uppi og hafa að einu eða öðru leyti forréttindi umfram aðra. Og slíkt fólk sér bara heiminn út frá sjálfu sér. Svona eins og þegar Björn Blöndal segir í viðtölum að hann geti vel borgað leikskóla fyrir börnin sín og að umræðan um skólamáltíðir sé ekki hversu dýrar þær séu heldur hvað börnin fái að borða.

En aftur að ummælum Dóra í Kjarnanum. Þar segir hann:

Vinstri græn eru eiginlega á sömu Framsóknarlínu um einhvern popúlískan sósíalisma þegar þau lofa gjaldfrjálsum leikskóla. Það þarf að efla innviði leikskóla í Reykjavík, mögulega þarf einkaframtakið að eiga þar skrens. Og hvaða rökvilla er að líkja þessu við grunnskólann? Eru ekki allir nokkuð sammála að grunnskólastigið mætti alveg við meiriháttar uppfærslu? Þetta er þessi undarlega lenska vinstri manna, að heimta að allir hafi það jafn skítt, í stað þess að allir hafi það jafn gott.

Það er nokkuð skondið að stuðningsmaður þess flokks sem talar hvað mest um bætt samskipti og málefnalega umræðu skuli láta svona frá sér fara. Í fyrsta lagi endurtekur hann gamaldags orðræðu sem hefur sakað vinstrimenn um að vilja að allir hafi það jafn skítt. Í öðru lagi bera ummæli hans þess glögglega merki að hann hefur ekki kynnt sér málefnaskrá Vinstri grænna eða sett sig inn í skólamál yfirhöfuð. Og mig langar að bregðast við því.

Leikskólinn hefur verið viðurkenndur sem fyrsta skólastigið. Það er varla hægt að tala um að sú menntun sem þar fer fram sé valkvæð þjónusta við ung börn. Ríflega 98% foreldra nýta sér hana. Börn innflytjenda og tekjulágra eru líklegri til þess að sækja ekki leikskóla. Á leikskólum fer fram fjölbreytt og mikilvæg menntun með börnum. Þar er líka veittur sá stuðningur við börn sem getur skipt höfuðmáli fyrir framtíð þeirra í skólakerfinu. Markviss málörvun, öflugur félagsþroski, sköpun og tónlist, snemmtæk íhlutun, jafnrétti, lýðræði, alhliða menntun, hvatning og forvarnir eru allt þættir sem styrktir eru á leikskólastiginu, fyrsta skólastigi barna. Ef menn geta samþykkt að samfélagið eigi að standa straum af skólagöngu og menntun barna þá geta þeir tekið undir hugmyndafræði okkar Vinstri grænna um gjaldfrjálsa grunnþjónustu við börn. Öll börn eiga að sitja við sama borð þegar það kemur að menntun – óháð fjárhag foreldra. Það eru ekki allir jafn vel staddir og Björn Blöndal og Dóri að geta veitt börnum sínum þessi tækifæri. Og það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að allir séu eins og maður sjálfur þegar maður skoðar samfélagið sem maður ætlar að hafa áhrif á í gegnum stjórnmál. Að kalla það rökvillu að líkja leikskólanum við grunnskólann eða annars konar menntun fellur um sjálft sig. Rökvillan liggur hjá Dóra sjálfum.

Það að vinstri menn vilji að allir hafi það jafn skítt er fáránleg staðhæfing. Þá gefur Dóri sér lægsta samnefnarann og dregur allt þangað niður. Vinstri menn vilja að allir hafi það jafn gott og hafi a.m.k. sömu tækifæri. Nýlegar skýrslur um t.d. fátækt 12 þúsund barna á Íslandi sýna að svo er ekki. Aukin misskipting og fólk undir lágtekjumörkum eru líka dæmi um að svo er ekki. Hvað stendur eiginlega í Dóra varðandi það að gera Ísland að velferðarsamfélagi og nota þau tæki sem stjórnvöld hafa yfir að ráða til þess? Gjaldfrjáls grunnþjónusta við börn er t.d. liður í því. Nú borga menn í Reykjavík útsvar eftir tekjum og við teljum að skattkerfið sé besta mögulega leiðin til að jafna kjör manna. Því teljum við að samfélagið eigi m.a. að bera ábyrgð á börnum og menntun þeirra og standa straum af því úr sameiginlegum sjóðum. Er það svona galið?

Við því að líkja okkur síðan við Framsóknarflokkinn og loforð hans hef ég bara eitt að segja: Framsóknarflokkurinn lofaði peningum sem eru ekki til. Við lofum peningum sem eru til.

Allt daður Bjartrar framtíðar við einkaframtakið, einkaskólana og einkavæðingu þykir mér miður. Rekstrarformið endurspeglar ekki fjölbreytni skólakerfisins. Þær stofnanir eru heldur ekki betur reknar menntastofnanir en þær borgarreknu. Þar fyrir utan kostar hvert barn í einkaskóla meira heldur en barn í borgarreknum skóla. Við Vinstri græn höfum bent á að núverandi meirihluti Bjartrar framtíðar og Samfylkingar geti forgangsraðað fjár mun meira og betur en hefur verið gert. Pólitískur vilji hefur ekki verið til staðar hjá þessum flokkum. Þeir hafa látið reka á reiðanum í málefnum leik- og grunnskóla og hafa jafnvel gerst svo óforskammaðir að segja að niðurskurðurinn í leikskólum hafi skilað sér í auknu fjármagni til þeirra. Ekkert er eins fjarri sannleikanum. Það er því alveg rétt sem Dóri segir að það þurfi að efla innviði leikskólans og að grunnskólinn þurfi uppfærslu. Við höfum líka sagt það. Það krefst aukins fjármagns sem við erum tilbúin í að veita. Og sjáðu nú til – hvort tveggja er hægt: Að gera grunnþjónustu við börn gjaldfrjálsa OG styrkja innviði og starf leik- og grunnskóla. Peningarnir eru til en forgangsröðun þeirra er síðan háð pólitískum vilja hverju sinni. Á málflutningi þeirra tveggja flokka sem nú hafa meirihluta í borginni hefur enginn vilji verið til þess. Það þykir mér dapurlegt.

Eftir því sem fylgi Bjartrar framtíðar fer meira niður verða greinar Dóra bitrari og súrari. Það er mjög hressilegt. Kannski er það vegna þess að Björt framtíð hefur loks formgerst sem stjórnmálaafl sem hefur sama agenda og allir aðrir. Að komast til valda og hafa áhrif. Það er hins vegar leitt að heyra að málefnaáherslur BF liggja í átt að einkavæðingaráformum og einkarekstrardaðri í leik- og grunnskólum og almennri frjálshyggju um að hver borgi fyrir sig. Það er aftur á móti ánægjulegt að vita loksins fyrir hvað flokkurinn stendur því þá geta alvöru félagshyggjumenn sem krefjast jöfnuðar og félagshyggju sniðgengið þá flokka sem eru ekki tilbúnir að forgangsraða með þeim hætti.Í það minnsta mæli ég með því að meðlimir í BF og reyndar öðrum framboðum taki af sér forréttindagleraugun og skoði heiminn eins og hann raunverulega er áður en þeir hella sér út í stjórnmál. Þeir sem mæla heiminn út frá sjálfum sér eiga nefnilega ekkert erindi í pólitík.

kjaftaedidoradna

PS. Mér finnst síðan engin dyggð í því að keyra kosningabaráttu á yfirdrætti. Frá mínum bæjardyrum séð ber það ekki vott um ábyrga afstöðu til fjármála.