Þrándur í götu

Sá vandi sem almennur leigumarkaður stendur frammi fyrir helgast meðal annars af því að stjórnvöld hafa ekki fylgst nægilega vel með þróuninni. Hér á höfuðborgarsvæðinu hefur lítið verið fylgst með leigumarkaðnum og Reykjavík er þar ekki undanskilin. Fyrir hrun var mikið byggt og fór svo í hruninu að margar íbúðir stóðu tómar. Eftir hrun hefur svo þróunin verið á hinn veginn. Þá vantaði sárlega litlar og meðalstórar íbúðir á viðráðanlegu verði. Leiguverð hefur rokið upp m.a. vegna þess að eftirspurn eftir leiguíbúðum hefur aukist og líka vegna þess að núverandi meirihluti hefur ekki sinnt félagslegu hlutverki sínu og haldið í við áætlun um árlega uppbyggingu félagslegra íbúða. Frá árunum 2011 til 2013 telst mér því til að félagslegum íbúðum hafi fjölgað um 10. Þörfin fyrir félagslegt húsnæði er hins vegar miklu miklu meiri. Til þess að mæta þeim sem eru í brýnni þörf þyrfti að koma upp rúmlega 100 íbúðum ár hvert.  Og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Nú lofar Samfylkingin öllu fögru um eflingu og uppbyggingu leigumarkaðar. Og Björt framtíð tekur undir. En hvernig er hægt að treysta þessum tveimur flokkum fyrir því að hér verði komið á 2500-3000 íbúðum á almennum leigumarkaði þegar þessir tveir flokkar hafa ekki getað sinnt því lögboðna hlutverki sveitarfélaga um að byggja félagslegt húsnæði? Í rauninni eru loforð þessara flokka tilraun til þess að leysa vanda sem þau sjálf sköpuðu með aðgerðaleysi sínu.

Áætlanirnar eru auk þess lítt mótaðar og gera ráð fyrir að samið verði við ýmsa aðila um framkvæmdina. Enn er eftir að stíga ótal skref áður en hefja má framkvæmdir. Líkur standa því til að aðeins lítill hluti þeirra íbúða sem Samfylkingin hefur lofað að byggja verði tilbúnar og komnar í útleigu fyrir lok kjörtímabilsins. En árið 2018 getur allt eins verið að fólk hafi gefist upp á biðinni og flutt í annað sveitarfélag.

Í skýrslum stjórnar Félagsbúðstaða má fá ágætis yfirlit yfir áherslur meirihlutans á uppbyggingu félagslegra íbúða.

Skýrsla stjórnar árið 2011: „Á árinu 2010 voru keyptar 11 íbúðir og jafnmargar seldar.“

Skýrsla stjórnar árið 2012: „Á árinu 2011 voru keyptar 4 almennar íbúðir en 12 íbúðir seldar.“

Skýrsla stjórnar árið 2013: „Félagsbústaðir keyptu samtals 29 íbúðir á árinu 2012 og seldu 21.“

Skýrsla stjórnar árið 2014: „Á árinu 2013 voru keyptar 14 íbúðir og seldar 4.“

Þetta er bara einn af þeim málaflokkum sem hefur einnkennst af aðgerðarleysi og stöðnun á kjörtímabilinu. Gæti ég nefnt marga. Það er því auðvelt fyrir Samfylkinguna og Bjarta framtíð að tala um frið og ró í borginni  þegar engin eru verkin og verkefnin til að takast á um.