Gámagettó

Í lögum segir að sveitarfélögin eigi að tryggja húsnæði fyrir íbúa sem “ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna”. Þetta hefur Reykjavík gert með t.d. félagsbústöðum. Sama hvernig hefur árað þá hefur Reykjavík alltaf haft það fyrir stefnu að hafa íbúðirnar góðar, þó vissulega hafi verið gerð þau mistök að blanda ekki nægilega vel félagslegum íbúðum um borgina. Félagslegar íbúðir eiga nefnilega ekki að vera afmarkaðar í tilteknum hverfum eða aðskildar frá öðru húsnæði. Við viljum ekki byggja fátækrahverfi. Um þetta hefur ríkt þverpólitísk sátt lengi – en eitthvað virðist það vera að breytast.

Furðulegar hugmyndir Framsóknarflokksins eru af allt öðrum toga. Gámastæður af smáíbúðum, sem hver um sig er á stærð við hótelherbergi, samræmast ekki hugmyndum okkar um mannsæmandi húsakost. Það er heldur ekki ásættanlegt að draga úr kröfum okkar þegar það kemur að íbúðaúrræðum fyrir efnaminna fólk. Það gerir maður ekki í velferðarsamfélagi.

Þó svo eigi að heita að slík hús væru “skamtímaúrræði” þá hefur sagan sýnt okkur að skammtímaúrræði geta hæglega orðið að langtímavanda. Þannig var það með braggahverfin sem hýstu þúsundir Reykvíkinga eftir seinni heimstyrjöldina.

braggi

Blönduð byggð af efnalitlu og efnamiklu fólki stuðlar að minni stéttaskiptingu og auknum jöfnuði. Það er samfélagið sem við eigum að stefna að. Þess vegna eigum við að halda okkur við þá stefnu að bjóða fólki upp á mannsæmandi húaskost á góðum kjörum í blandaðri og fjölbreyttri byggð, en ekki búa til nýtt braggahverfi með gámum.

Ég er alfarið á móti þessum fornaldarlegu viðhorfum Framsóknarflokksins til að leysa húsnæðisvanda efnaminna fólks. Þau einkennast af skammsýni og tækifærismennsku. Svona eins og þeirra er von og vísa.