Kosningar eru kjarabarátta

Þegar kjarasamningar eru lausir hafa stjórnmálamenn sig hæga. Þeir þykjast engin áhrif hafa og segja að allt sé í höndum samninganefnda sem fara með umboð hins opinbera. Línan á milli stjórnmála og launþega er dregin eins og það séu óskrifaðar reglur um að kjaramál stétta eigi ekkert erindi á borð stjórnmálamanna. Þegar launþegar grípa svo til örþrifaráða í kjarabaráttunni rámar suma stjórnmálamenn hins vegar í áhrifavald sitt: Þeir setja lög og svipta launþega verkfallsréttinum. Þeim væri nær að opna augun fyrr því að baráttan fyrir bættum kjörum á að vera háð í öllum kimum samfélagsins og af hvers kyns þrýstiöflum. Oft fléttast þræðirnir saman úr ólíkum áttum og mynda þéttingsfast reipi sem togar málstaðinn hressilega áfram með öflugum samtakamætti. Það er gott. Við þurfum meiri samtakamátt í baráttuna. Við þurfum að sameinast í því að berjast fyrir kjörum lágtekjufólks, bættum starfsaðstæðum, betri kjörum umönnunarstétta og kvennastétta, verkafólks og annarra sem eiga undir högg að sækja og hafa ekki fengið þá launaleiðréttingu sem þeir eiga skilið. Við þurfum líka að berjast fyrir jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi, gegn útlendingahatri og kynbundnu ofbeldi, friði og  jöfnuði og gegn kapítalisma sem allt vill kaupa og á ölllu græðu en gefur ekkert fyrir manngildi og virðingu. Stjórnmálamenn eiga að vera hluti af þeirri baráttu, baráttu sem breytir og er hreyfiafl.

kjarabaratta2

Samningar grunnskólakennara eru lausir. Þeir krefjast launaleiðréttingar og sambærilegra launa eins og aðrar háskólastéttir. Myndin er tekin á fyrsta samstöðufundi þeirra.

Og þannig er okkar pólitík í Vinstri grænum. Við gerum allt þetta og við sem stöndum í eldlínunni látum okkur kjaramál varða. Við erum í pólitík til að bæta kjör og aðstæður fólks. Það gerum við  með því að komast til áhrifa. Við getum haft áhrif á það í borginni að laun leikskólakennara, grunnskólakennara og frístundafræðing verði leiðrétt. Að laun hækki. Að starfsálagið minnki. Að fjölgun verði í stéttinni. Að hlustað sé á starfsfólk. Við getum haft áhrif á það að launalægstu hóparnir fái mannsæmandi laun en séu ekki undir fátæktarmörkum. Við getum séð til þess að enginn launamunur sé á millji kynjanna hjá Reykjavíkurborg. Við getum gert vinnuaðstæður og skilyrði betri og við getum ekki, sem samfélag, staðið sama um þá sem hafa hrokkið fyrir borð eða standa höllum fæti að öðru leyti.

Þegar maður er í pólitík verður ekkert manni óviðkomandi, og heldur ekki kjarabaráttan, því með bættum kjörum og jöfnuði gerum við heiminn

mikið betri. Um þetta snúast stjórnmál.