Stefnulausi flokkurinn og róttæka hreyfingin

Í morgun fór ég til Bergsteins í morgunútvarpið. Þar spjallaði ég við Evu Einarsdóttur, sem er borgarfulltrúi Besta flokksins og nú frambjóðandi Bjartrar framtíðar, um m.a. málefnaáherslur okkar í VG. Í viðtalinu kom ýmislegt fram í máli Evu sem var beinlínis rangt og mér láðist að leiðrétta, eins og þegar hún fullyrti að samræða við ríkið um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, væri hafin. Borgarráð hefur ekki lokið málinu og viðræður eru ekki farnar af stað þrátt fyrir ítrekun okkar. Hins vegar voru viðbrögð Evu við gjalfrjálsri grunnþjónustu við börn athyglisverð. Hún lýsti því yfir að lítill vilji væri af hálfu Bjartrar framtíðar að stíga skrefið í átt að gjaldfrjálsri þjónustu við börn. Eva taldi hugmyndir VG óraunhæfar og að henni finnst borgin þegar niðurgreiða nóg. Reykjavík niðurgreiðir um 85% af kostnaði vegna þessarar þjónustu en ég velti fyrir mér hver það var sem ákvað að 85% væri sanngjarnast? Af hverju ekki 90% eða 100% Hefur einhvern tímann skapast sátt um þessa tölu? Þar að auki kom hún því að, að þau í Bjartri framtíð væru ekki flokkur sem væru í einhverjum loforðum. Að því sögðu velti ég þá fyrir mér hvort þau hafi yfirhöfuð sett sér markmið og stefnu og hvort þau væru ekki með þessu að boða óbreytt ástand og stöðnun. Í mínum huga er ekkert eins metnaðarlaust. Að láta reka á reiðanum og hafa enga framtíðarsýn er það versta sem stjórnmálmenn gera. Það eru líka vonbrigði að afsprengi Besta flokksins, sem aldeilis rasskellti fjórflokkin í síðustu kosningum, skuli nú vera orðinn rúðustrikaður kennitöluflakksflokkur með enga framtíðarsýn. Kannski voru það kjósendur sem voru rassskelltir en ekki hin hefbundnu stjórnmálaöfl.

Krakkar á leið í leikskólann í vorsólinni.

Krakkar á leið í leikskólann í vorsólinni.

Hugmyndin um gjaldfrjálsa grunnþjónustu við börn verður að veruleika. Annaðhvort þegar við komumst til áhrifa eða þá í nálægri framtíð. Við höfum öll samþykkt að leikskólinn sé fyrsta skólastigið og að ekkert barn eigi að verða af því að fara í leikskóla. Við höfum bundið í lög fræðsluskyldu og þannig eiga grunnskólarnir að standa öllum börnum opnir – óháð fjárhag foreldra. Þeir eiga að vera gjaldfrjálsir og við erum tilbúin að axla ábyrg á því í sameiningu.

Úthlutun fjár til málaflokka er ekki náttúrulögmál. Það er pólitískt viðfangsefni sem byggir á framtíðarsýn og forgangsröðun. Það er ekki óábyrgt eða óraunhæft að vilja forgangsraða meira í þágu menntunar yngstu þegna landsins, bæta kjör og starfsaðstæður leikskólakennara, grunnskólakennara og frístundafræðinga og axla ábyrgð á ungum börnum eftir að fæðingarorlofi lýkur með því að bjóða þeim pláss á borgarreknum leikskólum. Það byggir á þeirri sýn að öll börn eiga að sitja við sama borð og fá jöfn tækifæri óháð fjárhag foreldra og að beita þurfi markvissum aðgerðum til að taka á þeirri meinsemd í samfélögum sem fátækt er og stigvaxandi misskiptingu. Það er ábyrg afstaða til samfélagsins og raunhæft. Það er það sem við í VG stöndum fyrir.