Í þágu misskiptingar – endurbirt

Fyrir næstum því ári síðan, eða þ. 13. mars í fyrra, sendi ég Morgunblaðinu grein. Ég held það megi alveg rifja hana upp núna þegar Alþingi ræðir um ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána.

Í útvarpinu heyrði ég auglýsingu þar sem Sjálfstæðisflokkurinn lofar að koma aftur á misskiptingu í íslensku samfélagi. Hann segir það ekki umbúðalaust heldur pakkar því inn í glanspappír og bindur kirfilega fyrir með rándýrum böndum. Landsfundurinn samþykkti nefnilega að nú skyldi ærlega tekið til hendinni og öllu komið í fyrra horf. Hagvöxtur, kapítalismi, einstaklingshyggja, sérhagsmunagæsla og gróðahyggja verða að fá uppreist æru og er lítið skeytt um komandi kynslóðir eða heildarhagsmuni samfélagsins til framtíðar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnilega aldrei dregið dul á að hann er flokkur fjármagnsins og gerir allt fyrir þá efnamestu þótt hann dulbúi sig stundum til að ná atkvæðum frá sótsvartri alþýðunni.

misskiptingarfalkinn

Hér má sjá misskiptingarfálkann. Ég stilli honum til vinstri við textann í þetta sinn bara til að pirra hann dálítið.

En hvernig má það vera að loforð Sjálfstæðisflokksins um lausnir fyrir heimilin í landinu boði misskiptingu? Tvennt liggur þessari kenningu helst til grundvallar. Fyrir það fyrsta liggur fyrir að breytingar núverandi ríkisstjórnar á skattkerfinu hafa leitt til þess að efnamenn greiða hlutfallslega hærri skatta en í tíð Sjálfstæðisflokksins á meðan þorri fólks greiðir nú lægri skatta en fyrir hrun. Þannig hefur dregið úr tekjuójöfnuði. Stærri hluti skattbyrðarinnar fellur því á þá sem geta borið hana á meðan barnafólki, tekjulágum og millitekjufólki er hlíft. Um 60% heimila greiða því lægri tekjuskatt í dag en þau gerðu fyrir hrun. Sjálfstæðisflokkurinn vill hins vegar færa skattkerfið til fyrra horfs og afnema breytingarnar sem þrepskipta skattkerfið hefur í för með sér. Það verður til þess að auka ójöfnuð og misskiptingu á nýjan leik.

Hin breytingin lætur minna yfir sér en veldur einnig auknum ójöfnuði. Það eru áform sjálfstæðismanna um ívilnanir til fasteignakaupenda sem kaupa með lánsfé. Hér er rétt að gera þann fyrirvara að ég er hlynnt því að ríkisvaldið styðji við fólk í húsnæðismálum. Skattaívilnanir eins og sjálfstæðismenn leggja til hafa hins vegar reynst þannig í heiminum, að efnamenn sem kaupa dýrar fasteignir fá hæsta skattaafsláttinn en þeir sem kaupa lítil hús, leigja húsnæði eða búa í félagslegu húsnæði fá lítinn eða engan skattaafslátt. Með því eykst enn ójöfnuðurinn. Ef við viljum gera eitthvað í raun og veru fyrir heimilin í landinu myndum við leggja áherslu á raunhæfar aðgerðir en ekki skattalækkunar-ívilnanaskrum. Við ættum að efla félagslega kerfið enn frekar, styðja betur við barnafólk og hækka skattleysismörk. Það hefur núverandi stjórn gert.

Það liggur því í augum uppi hvert fyrirheitið er fyrir komandi kosningar: Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum er atkvæði greitt aukinni misskiptingu í íslensku samfélagi.

Af þeirri ástæðu er ég fegin því að þjóðin kaus félagshyggjustjórn í síðustu kosningum. Og einmitt þess vegna finnst mér mikilvægt að við kjósum félagshyggjustjórn í vor.