Vegið að störfum kvenna

Menntamálaráðherra hefur gefið það út að stytting framhaldsskólanáms sé forsenda fyrir kauphækkunum kennara. Með öðrum orðum segir ráðherra að það þurfi að fækka kennurum til borga þeim hærri laun. Þar með hótar hann þeim uppsögnum. Orð ráðherra verða ekki til í tómarúmi, heldur eru þau hluti af orðræðu um að að íslenskt menntakerfi sé of dýrt í alþjóðlegum samanburði miðað við árangur íslenskra nemenda, sem er mældur í könnunum eins og t.d. PISA. Þá hafa alþjóðlegar stofnanir, eins og OECD, einnig mælt með því að hér verði bæði framhaldsskóla- og grunnskólanámið stytt.

IMG_1498

Listaverk grunnskólabarna í Suðurhlíðarskóla frá 2004.

Heildarkostnaður við íslenskt skólakerfi segir hins vegar ekki alla söguna. Staðreyndin er sú að framlög til skólakerfisins eru ólík eftir námsstigum. Þannig hafa framlög til grunnskólakerfisins aukist á undanförnum áratugum, mælt sem kostnaður á nemanda, en framlög til framhaldsskólanna hafa hins vegar minnkað samkvæmt sömu mælingu. Hlutfallslega verja Íslendingar mjög litlu til háskólanna og þyrftu raunar að tvöfalda framlagið til að ná meðaltali OECD. Það er sem sagt aðallega kostnaðurinn við grunnskólakerfið sem skýrir stöðu okkar hvað varðar kostnað við menntakerfið í samanburði við önnur OECD ríki. Þá er það rétt að fjöldi nemenda á hvern kennara er óvíða eins lágur og hér. Hins vegar verður að taka tillit til þess að Ísland er sérlega dreifbýlt land. Fjöldi nemenda á hvern kennara er hár á fjölbýlli stöðum, eins og á höfuðborgarsvæðinu, en heildartalan er dregin niður af fámennum skólum á landsbyggðinni. Þá skýrist fjöldi framhaldsskóla einnig af dreifbýlinu því hingað til hefur það verið stefna að reyna að gera sem flestum kleift að stunda framhaldsskólanám í sinni heimabyggð, og því hafa hugmyndir um fækkun framhaldsskóla ekki notið hylli.

En hvað sem líður villandi upplýsingum og hugmyndum um það hvernig megi minnka kostnað við íslenskt menntakerfi, þá stendur það eftir að vel er athugandi að fækka námsárum og gefa meiri sveigjanleika í námi. Hins vegar er það kjaramálum kennara algerlega óviðkomandi. Nú þegar eru skólarnir komnir að þolmörkum í niðurskurði (sjá t.d. þessa skýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga) og kennarar, sem og aðrir háskólamenntaðir starfsmenn, hafa þurft að sjá á eftir ýmissi yfirvinnu og sporslum en einnig setið eftir í kjaraþróun í grunnlaunum. Þeir hafa búið við aukið álag og verri vinnuaðstæður undanfarin ár og fá nú framan í sig hótun um fækkun starfa í greininni frá ráðherra sínum.

Hluti af stærra máli

Gott velferðar- og menntakerfi er ekki bara hornsteinn samfélagsins heldur einnig starfsvettvangur um helmings starfandi kvenna á íslenskum vinnumarkaði. Eins alvarlegt og þetta mótspil ráðherra er, þá er ekki hægt að líta framhjá því að það er hluti af stærra máli. Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar er aðför að velferðarkerfinu og störfum ríkisstarfsmanna, sem eru að meirihluta til störf kvenna. (Sjö af hverjum tíu störfum hins opinbera eru unnin af konum). Í stjórnarsáttmálanum er ráðandi sú hugsun að uppgangurinn eigi sér stað í einkageiranum og að hið opinbera þurfi fyrst og fremst að passa að það sé ekki fyrir hagvextinum sem einkaframtakið skapar. Raunar er afskiptaleysi ríkisins svo mikið að sveitarfélögin eru nú ekki aðeins farin að greiða framfærslu þeirra sem dottnir eru út af atvinnuleysisbótaréttinum, því atvinnuleysisbótatímabilið var ekki lengt aftur, heldur eru þau líka farin að sjá um vinnumarkaðsvirkjandi úrræði í stað ríkisins. Á móti er því beint að kennurum (sem eru 80-90% konur) í kjaradeilu eftir hálfan áratug af niðurskurði að fækka eigi störfum í greininni. Þá var talað um það í tengslum við fjárlagafrumvarpið að bjarga þyrfti heilbrigðiskerfinu og styrkja heilsugæsluna, en í þessari viku birtir sjálfur efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra grein þar sem hann talar gegn opinberu heilbrigðiskerfi. Þá sýnir nýleg greining á breytingunum sem fjárlögunum fylgdu að enn er skorið niður í heilsugæslunni. Að því sögðu er vert að rifja upp þær köldu kveðjur sem hjúkrunarfræðingum bárust frá fjármálaráðherra 19. júní síðastliðinn þegar umsamin launahækkun átti að ganga til baka, en sú stétt, eins og aðrar kvennastéttir, hafa setið eftir í kjaraþróun.

rikisstjornin

Núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem leggur litla áherslu á jafnréttismál og launaleiðréttingu starfa þar sem konur eru í meirihluta. Myndin fengin af vef DV.

Það er því ekki hægt að segja að þessi ríkisstjórn beri velferð og menntun samfélagsins fyrir brjósti eða gæti jafnræðis þegar litið er til atvinnusköpunar og -tækifæra. Hún vill ólm koma grunnþjónustu samfélagsins í hendur einkaaðila þar sem þeir sem geta borgað fá betri þjónustu en aðrir og hún er tilbúin til þess að markaðsvæða menntakerfið. Hún lítur heldur ekki sömu augum á kvennastörf og karlastörf. Atriðin sem ég nefndi hér að ofan bera þess glögglega merki.

Ég er ekki bjartsýn á að kjaradeila ríkis og framhaldsskólakennara leysist í bráð. Til þess þarf menntamálaráðherra og ríkisvaldið að breyta um stefnu og endurskoða hugmyndir sínar um samfélagið, umönnunarstörf og menntun. Ég er heldur ekki bjartsýn á að kjör kvennastétta batni sem skyldi í tíð núverandi ríkisstjórnar og þær fái þá launaleiðréttingu sem þær eiga rétt á. Það er dapurlegt að núverandi stjórnvöld skuli ekki meta kvennastörf að verðleikum heldur leggja þau sig fram við að fækka þeim og halda niðri launum. Það er miður.