Skugginn yfir Frakkastíg

Háhýsið sem nú stendur til að reisa neðst við Skúlagötu í Skuggahverfinu er virkilega vond hugmynd. Reyndar finnst mér Skuggahverfið og háhýsin þar ekki falleg þyrping þó ég efist ekki um að útsýnið úr íbúðunum sé stórkostlegt. Þar er eflaust gott að búa. En þegar nýjar byggingar eru samþykktar verður  að taka tillit til byggðar sem fyrir er. Og nýbyggingin sem nú stendur til að reisa mun stórskemma útsýnið og fjallasýnina af öllu Skólavörðuholtinu. Þó það sé mikilvægt að þétta byggð í Reykjavík, má það ekki gerast með því að ganga freklega á lífsgæði þeirra sem fyrir búa í borginni. Þéttingu byggðar má ekki kaupa hvaða verði sem er.

En úr því sem komið er veltir maður fyrir sér hvort hægt væri að leysa stóra Frakkstígs-Skuggahverfismálið með einhverju móti. Væru borgarbúar tilbúnir að borga milljarða úr borgarsjóði í skaðabætur ef stjórnmálamenn tækju sér vald og stöðvuðu framkvæmdina? Væri hægt að fá verktakann til að lækkka turninn verulega? Gæti borgin komist að samkomulagi við verktakann um lausn sem felur ekki í sér þessa sjónmengun frá Frakkastíg, ef til vill með því að úthluta honum annarri lóð ókeypis, þrátt fyrir kostnaðinn sem því fylgir?

skuggahverfi_frakkastigur_jonkjellseljeseth

Skúlagötuhúsið séð frá Frakkastíg. Myndin er samsett af Jóni Kjell Seljeseth og tekin af mbl.is

Byggingin sem nú rís var samþykkt árið 2006. Í fundargerð frá 2005 segir:

  1. Skuggahverfi, breytt deiliskipulag reits 1.152.3 (01.152) Mál nr. SN050650

Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga Hornsteina arkitekta að breytingu á deiliskipulagi reits 1.152.3 dags. 4. júlí 2005. Einnig lagt fram minnisblað Hornsteina dags. 12. maí 2005 og samantekt á byggingarmagni og nýtingarhlutfalli dags. 26. maí 2005. Málið var í auglýsingu frá 27. júlí til 7. september 2005. Engar athugasemdir bárust. Einnig lagt fram bréf Skipulagsstofnunar, dags. 4. október 2005, þar sem gerð er athugasemd við auglýsingu í B-deild. Lagðir fram uppdrættir Hornsteina arkitekta að breyttu deiliskipulagi Skuggahverfis dags. 21. október 2005.

Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja að senda tillöguna í auglýsingu með öllum hefðbundnum fyrirvörum um endanlega afstöðu.

Endanleg samþykkt liggur síðan svona fyrir í fundargerð frá 11. janúar 2006. Þau sem samþykktu voru Dagur B. Eggertsson, Stefán Benediktsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kristján Guðmundsson og Benedikt Geirsson:

  1. Skuggahverfi, breytt deiliskipulag reits 1.152.3 (01.152) Mál nr. SN050650

Að lokinni auglýsingu eru lagðir fram uppdrættir Hornsteina arkitekta að breyttu deiliskipulagi Skuggahverfis dags. 21. október 2005. Málið var í auglýsingu frá 16. nóvember til 28. desember 2005. Engar athugasemdir bárust.

Samþykkt, sbr. 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð.

Það liggur því fyrir að engar athugasemdir bárust. Og þarna stendur hnífurinn í kúnni. Umsagnarferlið virkar ekki. Borgarbúar átta sig ekki á framkvæmdum í nærumhverfi sínu fyrr en það er um seinan. Ekki fyrr en gröfurnar eru komnar á fullt við að grafa og þá segjast borgarfulltrúarnir ekkert geta gert. Þetta hafi verið samþykkt fyrir langa löngu og fólk verði bara að sætta sig við orðinn hlut.

Svona Gálgahrauns-vinnubrögð eru óviðunandi og úr þessu verður að bæta. Lausnin er hins vegar engin Barbabrella þó það sé freistandi að ímynda sér að það sé til ein töfralausn. Hins vegar er þátttaka íbúa í ákvarðantökum á vettvangi borgarinnar skref í rétta átt. Það þarf að efla beina þátttöku þeirra og koma á virku samtali milli stjórnmálamanna og stjórnsýslu Reykjavíkur.

Það er kallað eftir umsögnum um skipulagsmál í blöðunum og menn geta viðað að sér upplýsingum um þau á vef umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar. Ég held hins vegar að fæstir heimsæki þann vef daglega eða með reglulegu millibili. Það þarf því að ná betur til íbúa og með annars konar hætti. Eins mætti endurskoða verklagsreglur um hverjir eiga umsagnarrétt á breyttu skipulagi, sérstaklega þegar kemur að eldri hverfum þar sem nýbyggingar geta stórskemmt byggð sem fyrir er. Það þyrfti einnig að efla hverfisráðin og tryggja að þau séu virkur öryggisventill. Og svo mætti hugsa sér að viðamikil skipulagsmál fari í víðtæka íbúakosningu.

Það er margtuggið að skipulagsslysin verða ekki aftur tekin, en það er satt engu að síður. Hins vegar getum við sem borgarbúar endurskoðað hverjum við veitum umboð til að stjórna borginni þegar kemur að kosningum. Þá gefst okkur kostur á að kjósa fulltrúa sem hafa skýra sýn í skipulagsmálum, setja hag okkar, íbúanna í fyrsta sæti, og láta ekki verktaka eða aðra spila með sig.

En umfram allt þurfum við að endurskoða samtalið milli borgarbúa og stjórnkerfis. Íbúarnir eiga að hafa meira að segja um borgina sína og ekki bara á fjögurra ára fresti.