Er PISA eitthvað ofan á brauð?
Daginn sem PISA könnunin kom út hringdi blaðamaður í mig og leitaði álits hjá mér á niðurstöðunum. Ég sendi honum eftirfarandi sem birtist síðan aldrei. Mig langaði að halda því til haga hér:
PISA könnunin sem nú liggur fyrir finnst mér vera prófsteinn á tíu ára skólagöngu. Þetta er nokkuð löng mæling á skólakerfinu. Það er ánægjulegt að sjá að skólabragur sé með besta móti og líðan barna góð. Það sýnir okkur að við eigum gott fagfólk sem sinnir námi þeirra af alúð þrátt fyrir að verkefni þess séu sífellt meira krefjandi. Einnig eigum við, eins og Finnar, heimsmet í jöfnuði skóla. Í íslenskum skólum hafa allir jöfn tækifæri.
Mér finnast hins vegar niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að nú gæti verið rétti tíminn að taka kerfið og uppbyggingu þess til endurskoðunar. Að breyta fyrirkomulagi þess og efla námsárangur og lestur á forsendum barna og ýta undir fróðleiksþorsta þeirra. Viðhorf barna til skólans hafa batnað og það er gott. Þá höfum við eitthvað að byggja á. Hins vegar mætti velta því upp hvort stefna stjórnvalda hafi verið að smyrja smjörinu of þunnt á of stórt brauð. Það er til nóg af smjöri. Við ættum hins vegar að nýta það betur og í meira mæli.
PISA könnunin gefur líka vísbendingar um hvers kyns menningar- og lestraruppeldi börn fá heima hjá sér. Niðurstöðurnar eru ekki áfellisdómur yfir grunnskólunum eða starfinu sem þar er unnið þó þar megi margt betur fara. Uppalendur mættu taka þær til sín og velta fyrir sér hvað það sé heima fyrir sem megi bæta. Sjá börnin foreldra sína lesa? Er bókum haldið að drengjum jafnt sem telpum? Er lestur eðlilegur hlutur daglegs lífs? Ég held að ástæðan fyrir því að drengir séu neðar en stúlkur í lestri megi einfaldlega rekja til lestraruppeldis eða skorti á því. Því má auðveldlega breyta. Börn verða aldrei almennilega læs nema þau stundi lestur annars staðar en í skólum. Lesi sér til skemmtunar og gagns í frítímanum.
Nú hefur margt gott og gagnrýnið þegar komið fram í umræðunni um nýlegar niðurstöður, og PISA kannanir í heild sinni, sem ég get tekið undir. (Margt sem ég hef séð og lesið er líka mjög heimskulegt). Þessi ummæli mín – sem ég lét falla í blaðaviðtalinu – eru síður en svo tæmandi fyrir skoðun mína og afstöðu. Að mörgu er að hyggja þegar við rýnum niðurstöður PISA prófa og berum okkur saman við önnur lönd. Hafa ber í huga að PISA er bara mælitæki. Mælitæki sem við getum nýtt okkur til að bæta skólastarf. PISA er hvorki upphaf né endir alls. Umræðan um skólakerfið og nám og þroska barna okkar er ekki gjöful og frjó þegar niðurstöðum einnar könnunar er slegið upp í fjölmiðlum með dramatískum upphrópunarfyrirsögnum – stríðsfyrirsögnum. Ég hef áður sagt það og segi það enn – okkur gengur betur í að bæta okkur þegar við fáum til þess uppbyggilega gagnrýni og hvatningu og hrós fyrir það sem vel er gert. Það gagnast umræðunni lítið að afskrifa heilan árgang drengja sem nánast ólæsan. Það er heldur ekki rétt.
Við skulum halda áfram að einbeita okkur að því að gera nám og skólagöngu fróðlega og skemmtilega. Við skulum tryggja það að skólarnir séu staðir þar sem maður eignast vini fyrir lífstíð og fær tækifæri til að finna sína fjöl og þroska með sér félagsfærni. Við skulum efla verk- og listgreinar og sköpun þvert á greinar og fjölbreytilega hreyfingu. Við skulum efla vísindi og tilraunir í skólastofunni. Setja jafnrétti og rökfræði á dagskrá. Fara í vettvangsferðir og á söfn, leikhús og tónleika. Og umfram allt. Við skulum tala á uppbyggilegum nótum um skólakerfið, vera sanngjörn í gagnrýni okkar og gera kröfur til barna okkar og okkur sjálfra.
Stjórnmálamenn mættu síðan breyta viðhorfi sínu til menntunar og slíta hana í sundur frá umræðunni um hagvöxt og lögmál markaðarins. Nám og menntun hefur sjálfstætt gildi og verða ekki metin til fjár. Missum ekki sjónar af því markmiði í yfirborðskenndri umræðu í fjölmiðlum og á samfélagsvefjum.