Lestrarhvatning

Lestur_er_lykill

Þarna má sjá Erik Hirt lesa fyrir son sinn á kynningarbæklingi ætluðum að hvetja til lestrar. Feður ættu að lesa í meira mæli fyrir börn sín. Rannsóknir hafa sýnt að oftast séu það mæðurnar sem taka að sér lestraruppeldi barna sinna. Því þarf að breyta. Lestraruppeldi – eins og annað uppeldi – ætti að vera jafnt hjá foreldrum. Þannig ættu mæður t.d. að ærslast meira með börnum sínum og feður að lesa.

Upp á síðkastið hef ég nokkrum sinnum heyrt Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra ræða skólamál. Fyrst í „Stóru málunum“ á Stöð2, þá í „Sunnudagsmorgni“ og nú síðast á Skólaþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í öll þessi skipti var honum hugleikið hversu illa strákar stæðu sig í lestri, varpaði fram tölum úr PISA-könnuninni 2009 og sagði að einn af hverjum tíu strákum gæti lesið sér til gagns á móti einni af hverri fjórum stelpum. Í þessi þrjú skipti sem hann velti málinu upp ræddi hann aldrei hugsanlegar ástæður fyrir þessum slaka lesskilningi og lítið um mögulegar leiðir til úrbóta. Illugi virðist falla í þá gryfju umræðuhefðar sem hefur einkennt íslenskt samfélag of lengi. Við höfum nefnilega verið of upptekin af því að tala um vandann og minna okkur reglulega á hann í stað þess að einbeita okkur að því að uppræta hann og finna ásættanlegar lausnir. Það virðist nefnilega vera tilhneiging stjórnmálamanna að setja málin í nefnd og kanna eitthvað aftur og aftur sem margoft hefur verið rýnt, í stað þess að blása til sóknar út frá þeim gögnum sem þegar hefur verið aflað.*

Nú er lestrarvandi ungmenna ekki nýr af nálinni og hafa verið gerðar mýmargar rannsóknir og kannanir á lestri og læsi og skrifaðar um það ritrýndar greinar. Ber flestum fræðimönnum saman um að það sem skiptir höfuðmáli fyrir ánægju og notagildi lestrar sé gott lestraruppeldi. Lestrarátök í skóla, yndislestur, leshringir og hvatning hafa reynst góðar leiðir til að auka ánægju barna af bókum og lestri og geta kennarar og skólabókasafnsfræðingar staðfest það. En það er ekki hægt að einblína einungis á þátt skólanna þegar við rýnum í lestraráhuga og -getu barna og unglinga. Það skiptir líka máli að horfa á samfélagið í heild og m.a. velta fyrir okkur uppeldsisaðferðum og ólíkum kröfum sem við gerum til drengja og telpna. Getur verið að við gefum okkur að drengjum þyki ekki gaman að lesa og höldum því síður að þeim bókum? Geta takmarkandi uppeldisaðferðir haft áhrif á viðhorf drengja til náms og lestrar? Getur verið að telpur fái meiri hvatningu og aðhald heima fyrir til lestrar og í skólum heldur en drengir? Eru gerðar minni kröfur til drengja heldur en telpna?

Það er freistandi að svara þessum spurningum játandi og skella skuldinni af áhugaleysi drengja á uppeldisvenjur og félagslega tilbúin kyn en vitaskuld verður að horfa til fleiri þátta þegar það kemur að því að takast á við „lestrarvandann“. Ein leið væri að auka kynjafræðslu á öllum skólastigum og hafa kynjafræðinámskeið á menntavísindasviði og hrinda af stað átaki til að uppræta staðalímyndir. Að losa okkur undan fyrirfram gefnum hugmyndum um hverjir lesa og um hvað gæti t.d. verið hluti af því átaki. Vert er að hafa í huga að greina þarf síðan vanda hvers og eins og ráða bót á honum út frá einstaklingnum og með fjölbreyttum aðferðum. Þeir sem eiga erfitt með lestur (eða leiðist hann) eru ekki einsleitur hópur og getur vandi einstakra drengja verið aldeilis ólíkur en vandi einstakrar telpu af svipuðum toga og einhvers drengs.

Jákvætt umhverfi, félagsaðstæður og fyrirmyndir vega þungt í góðu lestraruppeldi barna. Við þurfum að átta okkur á því og varast það að setja drengi og telpur í fyrirframgefna hópa. Við þurfum að lesa fyrir öll börn og kynna þau fyrir bókum – telpur jafnt sem drengi – og ekki gefa okkur að áhugi þeirra miðist við fyrirframgefnar hugmyndir samfélagsins um kyn þeirra. Þegar við gefum okkur að kynin séu með einum eða öðrum hætti lítum við framhjá fjölbreytileika barnanna og fækkum tækifærum þeirra til að uppgötva sjálf sig á sínum eigin forsendum.

Nú er skiljanlegt að Illugi haldi að meginvandi drengja í skólakerfinu sé slök lestrarkunnátta þeirra, því umræðan hefur um langt skeið verið á þann veg. Hann er hins vegar í einstakri stöðu til að blása til sóknar og upphefja lestur og bækur, þannig að sjónir almennings beinist að fleiru en þessum lestrarvanda, í stað þess að fjalla í sífellu um þennan tiltekna vanda í fjölmiðlum eða á þingum Til þess getur hann fengið í lið með sér fagmenntað fólk á vettvangi menntastofnana, hvatt foreldra og nærsamfélagið til að vera fyrirmyndir barna í lestri og svo getur hann sett jafnréttismálin í forgang og einbeitt sér að uppræta staðalímyndir í skólakerfinu. Einnig mætti taka skólakerfið og menningu þess til gagngerrar endurskoðunar.

Margt hefur verið reynt og fjölmargt skilar árangri. Árangur ungmenna í lestrarkönnunum PISA færist einnig hægt upp á við (þ.m.t. drengja). Við þurfum bara úthald og seiglu og hafa trú á unga fólkinu okkar enda eru það fyrst og fremst hagsmunir þess að geta lesið sér til gagns og gamans. Börn eiga skilið að við tölum í lausnum og á uppbyggilegum nótum í stað þess að benda í sífellu á hvað þau geta ekki. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá gengur okkur alltaf betur með hvatningu og uppörvun en þegar eilíflega er verið að tala úr okkur kjarkinn. Ég er viss um að menntamálaráðherra hafi það hugfast næst þegar hann talar um skólamál.

*Í ræðu sinni á skólaþingi Sambandsins sagði menntamálaráðherra að í ráðuneytinu væri hópur að störfum við að undirbúa aðgerðaráætlun til að taka á lestrarvanda barna.