Lyfjaverksmiðjan í Vatnsmýrinni

Í tíð R-listans var ákveðið að Vísindagarðar skyldu rísa í Vatnsmýri. Mér finnst það ágæt hugmynd. Stúdentagarðarnir sem nú hafa risið eru liður í því. Engin fyrirtæki eða stofnanir hafa hins vegar komið sér fyrir innan vébanda Vísindagarðanna. Mögulega er engin eftirspurn. Mögulega hefur hrunið haft einhver áhrif á það.

Hvað sem því líður hefur nú verið tekin fyrsta skóflustungan að lyfjaverksmiðju Alvogen, sem kynnt hefur verið sem Hátæknisetur.

skoflustunga

Samkvæmt deiliskipulagi fyrir svæðið skal á því rísa þekkingarþorp „en það er þyrping þekkingarfyrirtækja, sem hafa að markmiði að skapa nýsköpunar- og viðskiptaumhverfi í tengslum við Háskóla Íslands og starfsemi hans.“ Fram kemur á vefsíðu Alvogen að félagið sé „ […] an international, privately-owned specialty pharmaceutical company focused on the development, manufacturing and marketing of generic pharmaceuticals, biosimilar products and OTCs“. Í fréttatilkynningu sem birt var á vef Reykjavíkurborgar var haft eftir Róberti Wessman forstjóra Alvogen:

„Fá samheitalyfjafyrirtæki eru komin eins langt og Alvogen í þróun þessara söluhæstu lyfja og við stefnum að því að vera í hópi fyrstu fyrirtækja á markað þegar einkaleyfi þeirra rennur út. Við sjáum því mikil tækifæri fyrir uppbyggingu Alvogen á Íslandi og vonandi verður okkar fjárfesting innblástur fyrir önnur fyrirtæki að hefja hér starfsemi eða efla enn frekar núverandi starfsemi sína.“

Það er því ljóst að ekki er um þess konar þekkingarfyrirtæki að ræða sem deiliskipulagið gerir ráð fyrir. Þar með er umdeilanlegt hversu heppilegt fyrirtækið er sem fyrsta fyrirtækið í þekkingarþorpinu.

Verksmiðja Alvogen þarf samþykki frá nokkrum opinberum aðilum þar sem starfsemi þess er af ýmsum ástæðum hættuleg. Skipulagsstofnun hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að losun efna í fráveitu sé undir viðmiðunarmörkum og því sé ekki ástæða til þess að framkvæmda umhverfismat vegna verksmiðjunnar. Skipulagsstofnun minnir þó sérstaklega á í niðurstöðu sinni að starfsemin er háð starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur fyrir mengandi atvinnurekstur, að innflutningur frumusýna sé almennt bannaður, að leyfi þurfi frá Umhverfisstofnun fyrir afmarkaða notkun erfðabreyttra örvera og einnig leyfi frá Lyfjastofnun til lyfjaframleiðslu. Stofnunin ítrekar sérstaklega að gætt sé að verktilhögun og mótvægisaðgerðum þannig að framkvæmdin sé ekki líkleg til að „valda verulegum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið.“

vesturbaerÞað er því ljóst að ýmsar ástæður eru til þess að setja fyrirvara við starfsemina enda getur hún haft margvísleg neikvæð áhrif. Slík starfsemi fer almennt fram á svæðum sem eru sérstaklega skilgreind sem iðnaðarsvæði. Þannig eru lágmörkuð hugsanleg neikvæð áhrif, t.d. af mengandi verksmiðjum, á aðra. Hér virðist sem verið sé að breyta þekkingarþorpinu í Vatnsmýri í lítið iðnaðarsvæði í miðri borg. Á bls. 203 í drögum að nýju aðalskipulagi er gert ráð fyrir að á svæðinu sem um ræðir sé blönduð byggð í kring: „Í blandaðri byggð er gert ráð fyrir íbúðarbyggð  ásamt tilheyrandi nærþjónustu í bland við þrifalega atvinnustarfsemi. Á þessum svæðum er þó ekki leyfileg starfsemi sem að jafnaði á heima á athafna- og hafnar- og iðnaðarsvæðum.“ Rétt er að taka fram að svæðið þar sem Alvogen verður er skilgreint sem þróunarsvæði en það breytir því ekki að það er steinsnar frá blandaðri byggð. Það er líka vafasamt að fara að taka nýtt land og fara að skilgreina það sem iðnaðarsvæði og það inn í viðkvæmu lífríki, nálægt íbúðarbyggð, skólum og leikskólum. Það liggur því í augum uppi að lyfjaverksmiðja á lítið erindi nærri henni.

Ákvarðanir sem teknar hafa verið varðandi verksmiðju Alvogen af hálfu Reykjavíkurborgar eru ógagnsæjar og setja má spurningarmerki við þær flestar. Í áðurnefndri fréttatilkynningu segir að Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, hafi haft […] „frumkvæði að viðræðum Reykjavíkurborgar við Alvogen um að velja sér stað í Reykjavík.“ Verður ekki annað ráðið af framsetningunni en að formaður borgarráðs hafi boðið forsvarsmönnum Alvogen að velja sér stað í Vatnsmýrinni. Liggur ekkert fyrir um það hvaða stað Alvogen hefði ella kunnað að velja sér. Fáir, ef nokkrir, hafa sömu tækifæri og stórfyrirtækið Alvogen.

Svo virðist sem lóðinni sé úthlutað til Alvogen án endurgjalds en hvergi hefur komið fram hvað greitt var fyrir hana. Samkvæmt vef Fasteignamats Íslands er fasteignamatsverð lóðanna í þekkingarþorpinu rétt undir 100 milljónum króna hver en markaðsverð fasteigna í Vesturbæ Reykjavík er gjarnan umtalsvert yfir fasteignamatsverði. Því til viðbótar hefur Alvogen fengið heimild til þess að greiða gatnagerðargjöld með skuldabréfi sem er afborgunarlaust í þrjú ár. Hér virðist vera um kostakjör að ræða.  Liggur ekkert fyrir um það af hverju Alvogen nýtur þeirra umfram aðra. Vitað er að margir aðilar vilja byggja í Reykjavík en hafa þurft að bíða óratíma og sæta ýmiss konar skilyrðum áður en byggingar eru samþykktar. Af ástæðum sem ekki hafa komið fram virðist hins vegar Dagur Eggertsson formaður borgarráðs hafa boðið Alvogen lóð í besta stað í bænum fyrir lyfjaverksmiðju á kostakjörum skv. sérstakri flýtimeðferð.  Einhvern tíman var haft fyrir satt að slíkt væri einungis á færi gamla góða Villa.

Við þurfum að framleiða lyf, um það er ekki deilt. En það er ekki sama hvar það er gert eða hvernig það er gert. Mengandi lyfjaverksmiðjur ætti að byggja á iðnaðarsvæðum nema sérstök rök standi til annars. Engin slík rök virðast hér vera fyrir hendi. Jafnframt er mikilvægt að allir sitji við sama borð þegar kemur að lóðaúthlutunum og afslátta frá sköttum og gjöldum. Virðist skorta á að svo sé í því tilviki sem hér um ræðir. Vatnsmýrin er dýrmætt land og þá er ég ekki að hugsa um öll húsin sem þar geta risið og allar framkvæmdirnar sem þar geta orðið. Vatnsmýrin og landið í kring er dýrmæt náttúra þrátt fyrir að vera að miklu leyti manngerð í dag. Við ættum að vernda hana í meira mæli og styrkja enn frekar sem náttúrulífssvæði. Endurheimt votlendis er umhverfis- og loftlagsmál og frekari stuðlun að fjölbreyttu náttúrulífi í borg er til hagsbóta fyrir alla, menn og borgarbrag. Við megum ekki spila með Vatnsmýrina í einhverju pólitísku lotteríi. Við þurfum stíga varlega til jarðar þegar flugvöllurinn fer. Skipulagsslysin verða ekki aftur tekin.