Hús, bílar og menn

Í fyrsta skipti sem ég fékk að kjósa var ég 18 ára gömul og greiddi atkvæði gegn Maastricht-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku árið 1992. Þá hafði ég búið í Kaupmannahöfn í tæp tvö ár og var farin að jafna mig á heimþránni til Íslands eða öllu heldur Reykjavíkur. Ég flutti heim þremur árum síðar og sé ekki eftir því og ekki heldur dvölinni í Danmörku, því þar lærði ég margt. Kaupmannahöfn kenndi mér ýmislegt um hvað er gott og hvað er slæmt í borgum.

cykler

Hjólahrúga í Kaupmannahöfn

Eitt af því góða voru samgöngurnar. Það var hægt að komast hvert á land sem var með strætó eða lest og ef maður fór að skemmta sér var lítið mál að komast heim með næturstrætó. Ég saknaði þess ekkert að vera ekki á bíl, enda fór ég á hjóli allra minna leiða. Ég tók ekki bílpróf fyrr en ég var aftur flutt heim. Reykjavík hefur hins vegar byggst upp í kringum bíla. Margs konar þjónustu er ekki hægt að nálgast nema á einkabílnum og strætó hættir að keyra snemma á kvöldin, byrjar ekki fyrr en á hádegi á sunnudögum og ekur ekki alla daga ársins. Þetta er vandamál í jafn dreifðri borg og Reykjavík, ekki síst núna á árunum eftir hrun þegar margir hafa þurft að herða sultarólina og reyna að spara eins og þeir best geta. En á meðan almenningssamgöngur eru eins og þær eru þýðir lítið að hampa bíllausum lífsstíl og loka augunum fyrir þörfum t.d. vaktavinnufólks og annarra sem reiða sig á strætó. Ef búðir í borginni geta verið opnar allan sólarhringinn hljótum við að geta látið strætisvagna ganga lengur en til miðnættis, að minnsta kosti um helgar! Þarna gætum við lært ýmislegt af öðrum höfuðborgum landa „sem við berum okkur saman við“ um þjónustu við íbúana.

Eitt af því slæma sem ég horfði upp á í Kaupmannahöfn var eymdin í kringum vændi og fíkniefnaneyslu sem fylgdist oft að. Sumir áttu engan samastað og sváfu í skotum og hvar sem skjól var að finna, þrátt fyrir hið fræga danska velferðarkerfi. Borgarstarfsmenn kepptust við að koma þeim í skjól og veita þeim einhverja aðstoð. Kaupmannahöfn var samt hátíð í samanburði við til dæmis London þar sem útigangsfólk kemur sér fyrir í inngangi að næstum öllum verslunum á kvöldin, helst þar sem heitur útblástur berst upp um loftræstiristar. Þannig er ástandið í mörgum stórborgum í okkar vestrænu velsæld.

Ástandið í Reykjavík er sem betur fer ekki svona slæmt en hér er vissulega húsnæðiskreppa. Það er gjarnan talað um unga fólkið þegar menn ræða um að byggja ódýrar leiguíbúðir en staðreyndin er sú að miklu fleiri þurfa á ódýru húsnæði að halda. Margir misstu húsnæðið eftir hrunið og húsaleiga hefur hækkað svo mikið – eflaust ekki síst vegna lítils framboðs og mikillar eftirspurnar – að láglaunafólk ræður ekki við að borga markaðsverðið og neyðist því til að hírast í ósamþykktum kytrum sem eru ekki beinlínis ódýrar heldur. Þetta hefur orðið til þess að biðlistar eftir félagslegu húsnæði hafa lengst gríðarlega og fólkið sem hefur ekki einu sinni efni á félagslega húsnæðinu og kemst ekki fyrir í troðfullum gistiskýlum fyrir útigangsfólk leitar í síauknum mæli til lögreglunnar til að komast í skjól næturlangt. Það gefur auga leið að gríðarlegt átak þarf af hendi borgarinnar til að bæta aðbúnað utangarðsfólks, fremur en að reyna að þrengja aðstöðu þess eins og tilhneiging virðist til (sjá t.d. grein varaborgarfulltrúa VG), ekki bara hér heldur víðar. Reykvíkingar vilja ekki að fólk liggi úti í vetrarhörkum og alls kyns veðri og hafi hvorki í sig né á.

halmtorvet

Húsgafl við Halmtorvet. Ég bjó lengi á Vesterbro og gekk oft þarna framhjá. Meiri veggjalist í Reykjavík!

Borgin virðist hins vegar farin að taka við sér í húsnæðismálum þótt seint sé og þau úrræði skili sér ekki strax. Það vakti samt athygli mína að um leið og  hugmyndir voru kynntar um námsmannaíbúðir í Ásholti, upphófust raddir um að bílastæði yrðu of fá. Það segir meira en mörg orð um almenningssamgöngur í Reykjavík. Engum virðist detta í hug að það sé annað en skelfileg kvöð að vera háður þeim og það er vissulega ekki alltaf tekið út með sældinni eins og þær eru núna. Samhliða fyrirhugaðri þéttingu byggðar verður auðvitað að hugsa almannasamgöngukerfið upp á nýtt og þá með þarfir notendanna fyrst og fremst í huga. Þarna gætum við lært margt af Kaupmannahöfn og reyndar öðrum borgum nágrannalandanna í staðinn fyrir að líta alltaf á einkabílinn sem framlengingu af einstaklingnum og almenningssamgöngur sem neyðarúrræði þegar bíllinn bilar. Þegar verið er að skipuleggja ný hverfi og þéttari byggð virðast aðrar samgöngur en einkabíllinn iðulega gleymast og vera kannski bætt við síðar eins og einhverjum bakþanka.

Nú er liðið ansi langt frá því að ég kaus í fyrsta sinn og kosningarnar sem hillir undir eru ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB eða annað af þeim toga heldur sveitarstjórnarkosningar sem mörgum þykja frekar léttvægar. Sumir halda að stjórn sveitarfélags sé eins og hver annar fyrirtækjarekstur og best komið í höndunum á embættismönnum á meðan pólitísku fulltrúarnir dúlla sér í kokteilboðum. Þannig er þetta auðvitað ekki, jafnvel ekki þegar kjörnir fulltrúar halda því fram að þeir séu ópólitískir. Embættismenn forgangsraða ekki á sama hátt og stjórnmálamenn og þeir leggja engar línur um hvað skiptir miklu máli og hvað minna, hverju þarf að sinna strax og hvað má bíða. Pólitískt kjörnir fulltrúar ráða ferðinni þar og þess vegna skiptir máli hverjir þeir eru og hvaða viðhorf þeir hafa. Mig hryllir til dæmis við tilhugsuninni um að næsti meirihluti í Reykjavík gæti komist að þeirri niðurstöðu að það sé góð hugmynd að svipta fólk sem fær framfærslustyrk frá borginni þeirri lítilfjörlegu upphæð ef það vill ekki pissa í glas til að sanna að það sé ekki í neyslu eða taka tímabundið af því styrkinn til að þvinga það til hlýðni við fyrirmæli ráðgjafa borgarinnar. Þessar hugmyndir og aðrar af svipuðum toga eru ástæðan fyrir því að ég gekk á sínum tíma til liðs við Vinstri græn því hreyfingin hefur spyrnt við fótum af fremsta megni þegar slíkt hefur verið uppi á borðum. Núna ætla ég sem sagt ekki bara að greiða atkvæði heldur vonast ég líka til að stjórnmálaaflið sem ég fylgi að málum og býð mig fram fyrir fái líka góða kosningu.

gamallstraeto

Gamall og góður strætisvagn.

Málin eru mörg sem þarf að skoða vel og húsnæðismál, samgöngumál og ekki síst velferðarmál eru brýn á verkefnalistanum, ekki síst núna í kreppunni sem fylgdi í kjölfar efnahagshrunsins. Þessir þrír málaflokkar eru þó að mörgu leyti tengdir. Frumskilyrði fyrir því að vandamálin sem tengjast þeim leysist vel og farsællega er að ganga í verkið með skýra pólitíska heildarsýn og af einlægri virðingu fyrir mannslífum, mannlegri reisn og mannvænum ferðamátum.