Fiskbollur í dós

Það er skemmtilegt hvernig hægri-hugsunin kemur upp um sig í ýmsum ákvörðunum sem snúa að mannfólkinu, eins og til dæmis þegar rætt er um ölmusur og stimpilklukkur. Fjármagnið er öllu ofar og allt skal mælt eftir mælistiku fjármagnsins. Þessar mælingar kalla svo á sérstaka orðræðu þar sem rætt er um „fjárfestingu í menntun“, „mannauð“ og fleira í þessum dúr.

Þegar peningahyggjan ræður ferð er manneskjunni komið haganlega fyrir sem bókahaldsstærð, einu sinni í debit og einu sinni í kredit. Krafan er um mælanleg viðmið og fjölbreytileiki verður bara frávik.

En fólk er ólíkt. Mennirnir hafa hver sína sýn á tilveruna, allt eftir eðli sínu, upplagi og reynslu. Nýfædd börn hafa sinn einstaka persónuleika frá því þau opna fyrst augun, eins og allir foreldrar vita. Og eins og allir foreldrar vita líka er erfitt að skila af sér börnunum til fyrstu dagforeldranna, á fyrsta leikskólann, í fyrsta tímann í fyrsta skólanum – en um annað er ekki að ræða, af því að við þurfum að sjá fyrir okkur og fjölskyldunni og auk þess eiga börn rétt á námi, fræðast um heiminn og umgangast aðra en sinn þrönga fjölskylduhóp. Það eina sem foreldrar geta huggað sig við er að við afkvæmunum tekur fagfólk sem ber hag barnanna þeirra fyrir brjósti, huggar þau, hlustar á þau, kennir þeim og annast og er jafnvel hreykið af framförunum sem þau taka. Að minnsta kosti þangað til þau stimpla sig út.

Börnin okkar læra betur ef búið er vel að þeim á skólastigi, hvort heldur er í leik- eða grunnskóla, ef kennararnir þeirra eru ekki sífellt með augað á klukkunni og geta látið það eftir sér að sinna þeim. Þau læra betur ef kennarinn er ekki með hugann við bónusinn sem hann kann að fá ef bekkurinn nær vissri lágmarkseinkunn og skeytir því ekki um greyin sem eru lengur að tileinka sér kunnáttuna og einbeitir sér einungis að bráðgeru börnunum. Þau læra betur ef það kemst á trúnaðarsamband milli þeirra og kennarans og þau vita að hann ber hag þeirra fyrir brjósti, líka þegar hann hefur stimplað sig út og fær engin laun fyrir að greiða úr þeirra málum. Þau læra betur ef skólinn er fræðslusetur en ekki niðursuðuverksmiðja sem þarf að „skila hagnaði“.

Börnin okkar eru ekki fiskbollur og eiga skilið að við þau sé komið fram eins og manneskjur. Þau eiga að fá allt það besta vegarnesti inn í lífið sem hægt er að hugsa sér. Þau verðskulda góða skólagöngu og menntun, manneskjulegt umhverfi og frjótt, allt frá fyrsta degi, svo þau hljóti þann þroska og þá framtíð sem þeim ber að fá. Skóli er ekki niðursuðuverksmiðja heldur gróðrarstöð andans og mannlegra samskipta. Skólastarf er ekki hægt að reka með stimpilklukkum og bónusum af því að þar eru mennskir menn í öllum sætum og að þeim þarf að hlúa því framtíð okkar er í húfi. Og hver vill eiginlega eldast í samfélagi þar sem fiskbollur halda um stjórnvölinn?

Greinin birtist á Smugunni.