Skrímslaprófkjör

Á meðan frambjóðendur sjálfstæðisflokks og samfylkingar keppast um hylli kjósenda sinna með hressilegum fjárútlátum, fer Vinstrihreyfingin – grænt framboð inn í forvalsbaráttuna með fyrirhyggju og sparnað í veganesti. Á undanförnum árum hefur prófkjörsbaráttan stigið í takt við taumlausa útþenslu og bruðlið hefur stigmagnast. Kostnaður sumra frambjóðenda hleypur á milljónum. Þess má geta að hámarksstyrkjaupphæð til frambjóðenda sjálfstæðisflokksins frá einum og sama gefandanum nemur sömu upphæð og frambjóðendum í forvali Vinstri grænna er heimilt að eyða að hámarki í forvalsbaráttu sinni.

Þegar svo mikið er lagt undir er kannski ekki skrýtið að ýmsum misjöfnum brögðum sé beitt og þær eru ófagrar sögurnar sem maður heyrir af baráttuaðferðum frambjóðenda flokkanna. Þó enginn sé annars bróðir í leik fullyrði ég að engin illindi eða úlfúð eru á milli okkar í forvalsframboði Vinstri grænna. Ástæðan gæti einfaldlega verið sú að fyrirkomulag og skipulag forvalsins býður ekki upp á það. Þar fer t.d. öll kynning frambjóðenda sameiginlega fram. Þá mætti velta fyrir sér hvort ástæðan lægi einnig í nafngiftinni þó það sé ekkert sem segi að forval hljóti að vera vinsamlegra en prófkjör. Sennilegasta skýringin er samt sú að Vinstrihreyfingin – grænt framboð er flokkur sem setur manngildi og gott siðgæði í forgang gagnvart peningum og gróðrahyggju. Flokkur sem er mannlegri en svo að bjóða frambjóðendum í skrímslapartí.