Praktískar upplýsingar fyrir forvalsdag

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá félagsmönnum VG að forvalskosningin er á laugardaginn, 6. febrúar. Hún fer fram í Kvennaskólanum við Þingholtsstræti á milli klukkan 10 og 18. Hér er mynd sem ég fann á vef Kvennaskólans og sýnir staðsetninguna ágætlega: http://kvenno.is/pages/16. Kosningin fer fram í Uppsölum. Húsnæðið er gegnt breska og þýska sendiráðinu og á ská fyrir ofan bandaríska sendiráðið. Sem sagt, allt í skjóli góðra vina … ehm.

Þeir sem komast ekki á kjörstað á laugardaginn geta gert þrennt. Þeir geta kosið á skrifstofu VG að Suðurgötu 3 á morgun, miðvikudaginn 4. febrúar og fimmtudaginn 5. febrúar frá 17-19, eða sent tölvupóst á forval.reykjavik@vg.is og beðið um að fá að kjósa utankjörfundar. Kjörseðillinn þarf að berast kjörstjórn í löturpósti áður en talning atkvæða fer fram.

Ef það vakna spurningar má kynna sér fyrirkomulag kosninganna hér: http://www.vg.is/kjordaemi/reykjavik/. Annars er kjörstjórnin afar liðtæk og indæl og svarar eflaust öllum spurningum um hæl ef henni er sendur tölvupóstur.

Ég vona að það verði frábær þátttaka í forvalinu. Það skiptir öllu máli að raða góðu fólki á listann svo íhaldið og ríghaldið haldi ekki velli eftir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Áfram Vinstrihreyfingin- grænt framboð.