Styður áfengi í matvöruverslanir markmið aðalskipulags?
Forseti og borgarstjórn – og ágætu borgarbúar.
Hér liggur fyrir tillaga sem virðist vera viðleitni til þess að styðja við sjálfbær hverfi. Er tillagan sett í þann búning um að sé að ræða einhvers konar skipulagsmál þar sem andi aðalskipulags leiðir til tiltekinnar niðurstöðu. Sú er hins vegar ekki raunin. Þó tillagan sé vissulega klædd í þann búning að málið snúist um kaupmanninn á horninu þá snýr hún atur á móti að því að borgin sendi frá sér jákvæð tilmæli til Alþingis um frumvarp sem leyfir brennivín í búðir. Nær væri því að líta á tillöguna sem tilraun til þess að ginna borgarstjórn með nokkuð útsjónarsömum – jafnvel lymskulegum hætti – til að taka afstöðu með einu af stærri deilumálum Alþingis undanfarinna ára. Og það er ekkert skrýtið að borgarfulltrúinn vilji fá borgarstjórn með sér í lið í þessu máli þar sem hún er einn af flutningsmönnum frumvarpsins á Alþingi. Ég hef fullan skilning á því að fólk vilji afla sér fylgismanna með hugsjónum sínum og baráttumálum en við skulum aðeins staldra við hér.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áfengisfrumvarpið kemur til umræðu á þinginu. Á síðasta þingi bárust tæplega fimmtíu umsagnir um sambærilegt frumvarp um breytingar á áfengislöggjöfinni. Það eru afar mikil viðbrögð við þingmannamáli. Umsagnirnar voru nánast allar neikvæðar og mæltu gegn því að frumvarpið yrði samþykkt. Ég held að lítið eða ekkert hafi breyst síðan þá.
Reykjavíkurborg sendi líka frá sér umsagnir. Og þegar tillaga Hildar Sverrisdóttur borgarfulltrúa er rýnd þá er ekki nóg að skoða bara umsögn umhverfis- og skipulagssviðs sem hún lét fylgja með í greinargerðinni. Við þurfum að skoða allar umsagnir frá borginni og vega og meta síðan í ljósi þeirra hvaða hagsmunir vega þyngst. Eru það hagsmunir um sjálfbær hverfi aðalskipulags? Eða eru það markmið borgarinnar um bætta lýðheilsu og að draga úr óæskilegum og neikvæðum áhrifum vímuefna og tengdum afleiðingum neyslu fólks. Hérna þýðir ekki að vera með neitt „cherry picking“ eins og mér sýnist borgarfulltrúinn gera í greinargerð sinni. Tillögur þarf að skoða í samhengi markaðrar stefnu hverju sinni.
Mig langar aðeins að koma inn á hlutverk sveitarfélaga í þessu tilliti. Þau eru framkvæmdavaldshafar og geta sem slíkir sett alls kyns reglur og skilyrði eftir því sem löggjafinn segir til um. Hingað til hefur það verið meginreglan að sveitarfélögum er falin mjög takmörkuð afskipti af verslun almennt. Fyrirliggjandi frumvarp gerir hins vegar ráð fyrir sérstöku hlutverki fyrir sveitarfélög. Vel mætti hugsa sér að þetta yrði eitt af verkefnum sveitarfélaganna – svona rétt eins og þetta frumvarp um áfengi í matvöruverslanir gerir ráð fyrir. Það vekur hins vegar upp ýmsar aðrar spurningar. Þurfa sveitarfélög þá ekki almennt að hafa skýrar valdheimildir til þess að hlutast til um málefni kjörbúða? Hafa einhver sveitarfélög almennt kallað eftir slíkum heimildum?
Ef við ætlum á annað borð að gefa áfengisverslun frjálsa og afnema ríkiseinokunina undir því yfirskyni að áfengi sé almenn neysluvara eins og matur og þvíumlíkt – af hverju þá ekki að ganga alla leið? Af hverju þora frjálshyggjumenn þessa lands ekki bara að ganga alla leið? Hvers eiga t.d. pylsuvagnar og ísbúðir að gjalda sem ekki fá að selja bjór með frómasnum eða einni með öllu? Af hverju mætti ekki alveg eins kaupa áfengi þar fyrst flutningsmenn og stuðningsmenn frumvarpsins líta áfengi þessum augum? Takmörkum við sölu osta eða spægipyslu við tiltekinn tíma eða skilyrði?
Allt tal um að áfengi sé eins og hver önnur neysluvara sem eigi heima í búðum fellur því um sjálft sig. Og svo virðist sem flutningsmenn geri sér grein fyrir því þar sem kveðið er á um í frumvarpinu að opnunartími sé takmarkaður. Nema auðvitað að þetta sé leið til að koma til móts við vonda vinstrið sem stendur gegn því að færa vínsölu í matvöruverslanir … en hefur auðvitað ekki látið blekkjast í þeim dansi.
Og aðeins meira um þetta frumvarp. Þetta er ekki frumvarp litlu kaupmannanna sem gætu hugsað sér að reka matvöruverslanir inni í hverfum. Þetta er ekki frumvarp sem er hugsað fyrir Kjötborg eða Rangá eða Pétursbúð. Þetta er frumvarp fyrir stóru búðirnar sem flestallar eru utan hverfiskjarna. Ég held að menn hætti ekkert að keyra þangað á bílnum sínum þó brennivínið farið þangað. Og nær þá tillaga borgarfulltrúans tilgangi sínum?
Og hvað gerist svo ef frumvarpið verður fellt á Alþingi? Vill borgarfulltrúinn þá fjölga útsölustöðum ÁTVR í hverfum? Myndi það fullnægja hugmyndum hans um sjálfbær hverfi? Og annað sem mig langar að vita er: Hvort brennur borgarfulltrúinn meira fyrir “sjálfbærni hverfanna” EÐA brennivínsfrumvarpinu sem liggur fyrir Alþingi? Það væri ágætt að fá þetta á hreint.
Forseti –
Í umræðum um málið talar enginn um hvað það sé frábært að geta keypt sér bjór í sjoppunni þegar maður leigir sér vídeóspólu. Það eru auðvitað allir hætti að leigja sér spólu en hvað um það … Það er öðru nær … málið virðist aðallega snúast um þægindin sem í því felast að kaupa sér hvítvín með humrinum á sunnudögum. Fylgjendur frumvarpsins láta almennt eins og það sé til einhvers konar fín áfengisdrykkja, áfengismenning, sem þurfi að blómstra. Rétt eins og engin skuggahlið sé á þessu máli.
Umhyggja borgarfulltrúans fyrir velferð borgarbúa og löngun hennar til að bæta aðgengi þeirra að “algengri neysluvöru eins og víni og öðru áfengi” er góðra gjalda verð, en einblínir óþarflega mikið á frumvarp sem liggur nú fyrir Alþingi og óvíst er hvort verði samþykkt. Látum vera hve algeng neysluvara “vín og annað áfengi” kann að vera og eins hvort æskilegt sé að neysla á “víni og öðru áfengi” sé algengari en nú er, en fer borgarfulltrúinn ekki yfir bæjarlækinn að sækja sér vatn í þessari tillögu? Væri ekki nær að beina tilmælum til Alþingis um að fjölga útsölustöðum ÁTVR í Reykjavík svo að “fólk þurfi ekki að fara akandi” til að kaupa þessa algengu neysluvöru? Eða það sem betra er – að sleppa því alveg að beina tilmælum til Alþingis í þessu máli? Mér finnst það besta niðurstaðan. Ég ætla því að segja nei þegar tillagan kemur upp til atkvæða hér á eftir.
Borgarstjórn 7. mars 2017
Tillaga borgarfulltrúa Hildar Sverrisdóttur um tilmæli til Alþingis vegna áfengisfrumvarpsins
Borgarstjórn beinir þeim tilmælum til Alþingis að í meðförum áfengisfrumvarpsins svokallaða verði tekið mið af að aukin smásöluverslun með áfengi styður við markmið aðalskipulags Reykjavíkur um sjálfbær hverfi.
Greinargerð: Í aðalskipulagi Reykjavíkur til 2030 er kveðið á um markmið um sjálfbærari hverfi. Einn lykilþáttur í því markmiði er aukin hverfisverslun. Í aðalskipulaginu er tekið fram að stefnt sé að því að matvöruverslanir og aðrar dagvöruverslanir verði staðsettar innan hverfanna og að markmiðið sé að fólk þurfi ekki að fara akandi til að sækja sér þjónustu. Óumdeilt er, og kemur til að mynda fram í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar, að bætt aðgengi að algengri neysluvöru eins og víni og öðru áfengi í formi fjölgunar staða sem hægt er að gera innkaup á áfengi án þess að þurfa að fara til þess akandi samræmist vel þeim markmiðum aðalskipulags um að gera hverfi sjálfbærari. Fyrir rúmum tveimur árum síðan lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram sambærilega tillögu í borgarstjórn um að borgarstjórn myndi hvetja Alþingi til að samþykkja áfengisfrumvarpið þáverandi þar sem það styddi við markmið aðalskipulagsins. Meirihlutinn samþykkti ekki tillöguna en vísaði henni til borgarráðs í frekari vinnslu. Málið virðist hins vegar hafa dagað uppi þar sem ekkert hefur heyrst um það eða afstöðu meirihlutans síðan þá. Nú liggur fyrir á Alþingi annað frumvarp sem miðar að því að gera smásöluverslun á áfengi frjálsa. Frumvarpið er enn í meðförum þingsins og því ekki útséð um hvernig endanleg útfærsla verður. Þó er ljóst, enn sem fyrr, að aukin smásöluverslun með áfengi í einhvers konar mynd styður við sjálfbærni hverfa. Því hlýtur vilji borgarstjórnar að standa til þess að stuðla að framgangi markmiða aðalskipulags síns og hvetja Alþingi til að taka mið af því í meðförum málsins á Alþingi.