Davíð á Bessastöðum

Flestir vita að það gengur ekki að kjósa Davíð Oddsson forseta lýðveldisins. Fyrir því eru margvísleg góð rök. Samt hefur ein röksemd gegn því fallið í skuggann af öðrum.

Eitt af verkefnum forseta er að hafa yfirumsjón um að mynda ríkisstjórn. Það má hugsanlega deila um hversu mikið reynir á það. Eftir kosningar kemur þó jafnan að þeim tímapunkti að formenn flokka fara á fund forseta og ræða við hann um mögulegt ríkisstjórnarmynstur.

Þegar það gerist er eðlilegt að gera þá kröfu til forseta að hann hafi hagsmuni þjóðarinnar og vilja almennings að leiðarljósi. Þannig verður helst mynduð ríkisstjórn sem vinnur að almannahagsmunum.

Verði Davíð Oddsson forseti má telja ólíklegt að ríkisstjórnarmyndanir geti gengið snurðulaust fyrir sig. Miðað við skoðanir Davíðs eru allar líkur á því að hann muni draga taum eins stjórnarmálaflokks umfram annars eða hugsanlega tveggja.

Er ekki næsta víst að Davíð myndi alltaf finna ástæðu til þess að fela Sigmundi Davíð og silfurskeiðasettinu stjórnarmyndunarumboðið, alveg óháð því hvaða útreið Framsókn kann að fá í kosningum? Skrif hans um fyrrverandi forsætisráðherra sýna glöggt dálætið á honum.

Eru þetta þá ekki bestu rökin fyrir því að kjósa ekki Davíð – líka fyrir innmúraða og innvígða sjálfstæðismenn?

 

Mynd- mbl.is:Styrmir Kári

Mynd- mbl.is:Styrmir Kári