Mengandi forysta

Í mínum huga eru stærstu viðfangsefni stjórnmálanna ójöfnuður, kynbundið ofbeldi og loftslagsbreytingar af manna völdum. Ættu allir sem veljast til forystu í stjórnmálum að gera þessi mál að baráttumálum sínum. Það gladdi mig því að lesa í fréttum að Samfylkingin hefði á landsfundi sínum tekið skýra afstöðu gegn olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Við nánari athugun og lestur landsfundarályktana varð ég ekki hins vegar ekki eins kát. Þegar ég heyrði svo í Árna Páli í hádegisfréttum* sunnudaginn 22. mars varð ég eiginlega verulega fúl.

Hér er sá hluti ályktunarinnar sem pirraði mig, s.s. tvær síðustu setningarnar (feitletrun mín):

Nú þarf að vinda ofan af þeirri leit og vinnsluáformum og lýsa því yfir að Íslendingar hyggist ekki nýta hugsanlega jarðefnaorkukosti í lögsögu sinni. Slík yfirlýsing verði hluti af framlagi Íslendinga til heildarsamkomulags um aðgerðir gegn loftslagsvá.

Í áðurnefndum útvarpsfréttum svarar Árni Páll síðan aðspurður, hvort leyfið fyrir rannsóknum á Drekasvæðinu hafi verið mistök í tíð fyrri ríkisstjórnar, með þessum hætti (feitletrun mín):

Já, það eru niðurstaða landsfundarins að samþykkja að þetta hafi verið mistök. Stefnumörkun landsfundarins hljóðar upp á það og ég er algerlega sammála því, þeirri aðferðarfræði sem þar er mörkuð, að vinda ofan af þessu ferli og að yfirlýsingar Íslands um að nýta ekki þessar auðlindir væru hluti af heildarskuldbindingum sem Ísland myndi undirgangast í alþjóðlegum samningum um loftslagsmál. Þetta væri þá framlag Íslands og á móti fengjum við þá meira svigrúm á öðrum sviðum sem skipta okkur máli.

Í þessu ljósi og eftir ummæli formannsins þá má ætla að Samfylkingin hafi samþykkt að hætta við olíuleit á Drekasvæðinu til þess að “eiga eitthvað inni” annars staðar þ.e. að stefnan væri að semja um aukna losunarheimildir Íslands í yfirstandandi viðræðum um loftslagsmál í skiptum fyrir að ná ekki í þessa tilteknu olíu. Ekki held ég að félagsmenn hafi hugsað ályktunina með þessum hætti en engu að síður má skilja hana og ummæli Árna Páls þannig.

Önnur rök hafa einnig verið nefnd fyrir sinnaskiptunum. Í viðtali við varaformanninn á Hringbraut þá borgaði það sig ekki efnahagslega að bora eftir olíu á Drekanum því olíubirgðirnar voru svo litlar. Og svo var víst eitthvað með kolsvarta skýrslu sem kom út árið 2013. Það hefur hins vegar lengi legið fyrir að ógnin sem steðjar að okkur er grafalvarleg og skýrsla frá 2013 væri bara að ítreka það sem áður hefur verið sagt. Ein af ástæðum þess er sú að það er alltaf verið að gefa eitthvað eftir svo hægt sé að menga meira annars staðar. Svona eins og forysta Samfylkingarinnar ætlar að gera.

Nú geta menn svo sem bent á Vinstri græn í þessu samhengi og sagt að okkar þáttur sé engu minni. Það er alveg rétt. Við hefðum átt að neita að taka þátt í þessu á sínum tíma (væntanlega með tilheyrandi yfirlýsingum andstæðinga okkar á því að við séum forræðishyggjusinnar og alltaf á móti). Aftur á móti eigum við eftir að halda okkar landsfund. Ég hef fulla trú á því að þar eigum við eftir að samþykkja ályktun sem er ekki hálfkák með fyrirvara um að fá að menga annars staðar. Til þess að takast á við vánna sem loftslagsbreytingar eru þarf róttækar aðgerðir. Ég er til í þær.

*Aðgengilegt á vef til 20. júní 2015

yfirlitskort_oliusvaedi