Nýja samfélagsgerð, takk

Nú liggur fyrir innanríkisráðherra að velja einhvern úr hópi þriggja umsækjenda til þess að gegn stöðu hæstaréttardómara. Ekki veit ég annað en að umsækjendurnir séu allir vandaðir og sjálfsagt hver fyrir sig sæmilega til þess fallnir að verða dómari við Hæstarétt.

Við mat á því hver þeirra sé hæfastur ákvað matsnefnd, einungis skipuð körlum, að reynsla af lögmannsstörfun ætti að ráða úrslitum um hæfið. Þá var niðurstaðan svo sem ljós. Af hverju nefndin taldi það skipta mestu máli liggur hins vegar ekki í augum uppi.

Hæfnisnefndin var aðeins skipuð körlum af því að hver tilnefningaraðili tilnefndi einn karl. Þannig voru höfð að vettugi ákvæði jafnstöðulaga um að tilnefna skuli einn af hvoru kyni. Skipaði innanríkisráðherra nefndina þrátt fyrir þennan augljósa ágalla.

Allt þetta ferli er vægast sagt dapurlegt. Karlar tilnefna karla sem velja síðan karl hæfastan. Ekki beint traustvekjandi.

Á hliðarlínunni situr síðan Jón Steinar Gunnlaugsson og deilir samsæriskenningum um það að karlaklíka í Hæstarétti beitir sér fyrir því að ákveðnir umsækjendur verði valdir umfram aðra.

Ætlunin með nýja ráðningarferlinu var sú að ráðningar áttu að verða faglegri. Vald ráðherra var temprað. Og víst er framangreint ferli allt sett í faglegan búning. Til eru bréf með snyrtilegum rökstuðningi sem leiðir til niðurstöðunnar sem væntanlega á að heita fagleg rétt. Útkoman var aftur á móti sú að enn einn karlinn með sterk tengsl við valdaelítuna var ráðinn. Skilaboðin með þeirri ráðningu eru þau að æðstu stöður í dómskerfinu eru ekki fyrir konur.

Í mínum huga þurfum við nýja samfélagsgerð sem byggir ekki á karla- og ráðherraræði. Við þurfum meira lýðræði.

Kannski hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta með annars konar ferli við val á dómurum. Hvernig getum við aukið traust á þessum ráðningum?

Ein leið væri að stofna ráðninganefnd ríkisins (mætti hugsa sér betra nafn) þar sem bæði fagfólk og almenningur er skipaður til að fara yfir umsóknir og meta umsækjendur í opinber störf og dómarasæti.

Sem dæmi hefði mátt skipa umrædda ráðninganefnd hæstaréttarlögmönnum, fagfólki og almenningi með slembivali. Svo myndi hlutkesti milli hæfra umsækjenda ráða því hver hljóti stöðuna og þess gætt að kynjahlutfall sé jafnt þannig að aldrei megi muna nema tveimur á milli kynja meðal hæstaréttardómara.

Þannig má draga verulega úr afskiptum elítunnar.

Hefði verið búið að innleiða þessa aðferð við val á hæstaréttadómara er næsta víst hver umsækjendanna hefði verið talinn heppilegastur þar sem Hæstiréttur þarf á konum að halda. Konan.

 

jon-steinar-og-vinir-ad-veidum

Myndin tengist þessari bloggfærslu ekki beint.