Áhyggjumaður lítur í vitlausa átt
Fyrrverandi varamaður í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fékk birta grein í Morgunblaðinu um helgina þar sem hann lá mér á hálsi fyrir að setja kíkirinn fyrir blinda augað gagnvart múslimum á Íslandi. Beindust sjónir áhyggjumannsins fyrst og fremst að styrk frá Sádi-Arabíu sem honum finnst að Félag múslima á Íslandi eigi að hafna vegna ástands mannréttindamála þar.
Það kunna vissulega að vera rök fyrir því að hafna slíkum fjárstuðningi t.d. vegna þess að honum fylgja óaðgengileg skilyrði eða vegna þess að gefandinn hefur óhreint mjöl í pokahorninu. Má í sjálfu sér taka undir það. Reykjavíkurborg ræður hins vegar litlu um það hvaða styrkjum sjálfstæð félagasamtök taka á móti.
Í ljósi fyrri skrifa Gústafs verður að ætla að áhyggjum hans valdi einkum þær hugmyndir sem hann gerir sér um íslam og lífstíl þeirra sem þau trúarbrögð aðhyllast. Það er hins vegar svo að á Íslandi er heimilt að stofna félög í hvaða lögmæta tilgangi sem er, þar á meðal trúfélög. Er það hluti trúfrelsis og skoðanafrelsis manna að þeir fái að iðka sína trú. Í meginatriðum er enginn grundvöllur fyrir því að draga menn í dilka eftir því hvaða farveg þeir velja sér í þeim efnum. Það eru eflaust allir sammála um að ástæðulaust er að gruna alla kaþólska presta um að vera kynferðisbrotamenn þó að upp hafi komist um skelfileg kynferðisbrot og barnaníð innan kaþólsku kirkjunnar. Með sama hætti er ekki ástæða til þess að gruna alla múslima um að vilja vega að mannréttindum.
Rétt er að taka undir áhyggjur áhyggjumannsins af stöðu kvenna, hinsegin fólks og annarra minnihlutahópa víða um heim, þar á meðal í ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta. Eins og við ættum að þekkja hér á landi er kristin trú (eða hvaða trú sem er) engin ávísun á vernd minnihlutahópa eða sterka stöðu kvenna. Íslenskar konur hafa t.d. þurft að hafa mikið fyrir þeim réttindum sem þær njóta í dag og eiga enn nokkuð í land. Hafa margir bent á dæmi þess að hin ýmsu trúarbrögð hamli framþróun mannréttindamála. Hefur myndast ágæt samstaða um það hér á landi að leita sífellt leiða til þess að efla og styrkja vernd mannréttinda. Var stofnun mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar viðleitni í þá átt.
Ummæli Gústafs um að ég setji fjárstuðning framar mannréttindum dæma sig sjálf. Ekki hefur verið upplýst um öll atriði sem lúta að styrknum sem raskaði ró Gústafs. Það litla sem komið hefur fram ætti ekki að raska svefnfrið nokkurs manns. Fagna ég áhuga Gústafs á mannréttindamálum og vænti þess að hann sé mér sammála um það að jafnræði trúfélagi hafi stórlega aukist með því að fundist hafi prýðilegir staðir fyrir tilbeiðsluhús annarra trúfélaga en íslensku þjóðkirkjunnar. Það er óskandi að slíkt verði til þess að efla og bæta mannréttindi og jafnræði innan borgarinnar.