Snertipunktar

Það eru allir að tala um áfengisfrumvarpið. Þingið hefur notað drjúgan tíma í að ræða það og margir hafa viðrað skoðun sína á samfélagsmiðlum. Með og á móti. Ég hef svo sem líka skoðun á þessu máli og eftir að hafa velt þessu fyrir mér þá hefur mér líka tekist að skipta um skoðun. Núna er ég t.d. fylgjandi einkasölu (samhliða ríkissölu) en vil ekki að vín sé selt í almennum matvörubúðum (sérhæfðar verslanir með mat væru undanskildar). En mín skoðun er svo sem ekki til umfjöllunar hér. Og kannski skipti ég aftur um skoðun. Mig langar hins vegar að koma annarri skoðun minni á framfæri og sú snýr að því hvernig við tökum ákvarðanir um umdeild mál.

Þessa mynd tók ég á Listasafni Árnesinga af verki Þórdísar Öldu Sigurðardóttur sem heitir Fótspor á Vetrarbrautinni. Þetta var eftirminnileg samsýning ólíkra listamanna sem hét Snertipunktar.

Þessa mynd tók ég á Listasafni Árnesinga af verki Þórdísar Öldu Sigurðardóttur sem heitir Fótspor á Vetrarbrautinni. Þetta var eftirminnileg samsýning ólíkra listamanna sem hét Snertipunktar.

Nú hefur þingið þrasað lengi um þetta mál og kannski mætti það hvíla sig aðeins á þessu og einbeita sér að stóru málunum (ef þau þá finnast í verkleysishrúgu ríkisstjórnarinnar). Mér fyndist því tilvalið að næsta skref væri að taka umræðuna um frumvarpið í rökræðukönnun. Fyrir ykkur sem eruð að heyra um rökræðukönnun í fyrsta sinn þá eru þetta, í stuttu máli, opnar umræður manna sem valdir eru með slembivali um tiltekin mál. Spurningakannanir eru lagðar fyrir í upphafi og við lok umræðna og öllum gögnum er teflt fram. Fræðimenn eða aðrir sérfræðingar (geta t.d. komið úr grasrótarhópum eða akademíunni) eru fengnir til að fjalla um málefnið og raddir þátttakenda fá að heyrast. Mönnum er skipt í hópa og hver hópur kemur sér saman um niðurstöðu. Niðurstöður geta síðan verið útgangspunktar ákvarðanatöku og jafnvel bindandi fyrir þá sem ákvörðunarvaldið hafa.

Í mínum huga þá væri áfengisfrumvarpið tilvalið tilraunaverkefni fyrir lýðræðisumbætur sem þessar; þar sem almenningur hefði bein áhrif á ákvarðanir Alþingis. Upplegg rökræðukönnunarinnar yrði þá kannski: Opinber stefna í áfengismálum (eða eitthvað aðeins hressara) og þar þyrftu menn að taka afstöðu til og fjalla um álitaatriði eins og áfengissölu í matvörubúðum og einokunarsölu ríkisins. Svo væru auðvitað fleiri mál krufin til mergjar í könnuninni og umræðunum. Í rökræðukönnunum er lykilatriði að greina markmiðin, kynna sér staðreyndir og svo koma með útfærslu og lausnir. Og eins og ljóst er orðið þá er nóg til af efni um þetta viðfangsefni og aðgengi að sérfræðingum og fræðimönnum á þessu sviði gott. Mér finnst því tilvalið að Alþingi efni til rökræðukönnunar um áfengisfrumvarpið og heyri hvað landinn hafi að segja.

Þetta frelsar samt ekki Alþingi undan ákvarðanatökunni enda er það ekki markmiðið. Mér hefur hins vegar þótt umræðuhefðin á Íslandi nokkuð stirð og kannski myndi þátttaka í rökræðukönnunum vera mikilvægt skref í átt að betri og gefandi umræðum um málefni líðandi stundar. Það væri a.m.k. eftirsóknarvert markmið að setja sér.

Þegar þessi rökræðukönnun er yfirstaðin getum við síðan tekið aðra um ESB og svo enn aðra um flugvöllinn þegar Rögnu-nefndin hefur skilað af sér. Ég væri a.m.k. til í það.