Innflytjendavandinn

Það er ekkert nýtt að forystumenn stjórnmálaflokka ali á andúð á innflytjendum til að auka fylgi sitt. Þetta gerði Framsókn í borgarstjórnarkosningunum og þetta hafa aðrir flokkar í kringum okkur einnig gert eins og t.d. Sannir Finnar og Svíþjóðardemókratar. Oft er þessi umræða hafin undir því yfirskyni að þeir sem setjast hér að séu afætur á kerfinu, leggi ekkert til þess, séu til vandræða eða komi með óæskileg gildi og vonda menningu. Og popúlistarnir eru með lausnina: Herða regluverkið, hleypa fáum inn í landið og aðlaga þá sem þegar eru komnir að þjóðlegum gildum og hugsanahætti. Stundum er málflutningurinn dulbúinn (eins og þetta snúist um einhver skipulagsmál) en oftast er hann grímulaus. Bábiljum er haldið á lofti og rangfærslur aldrei leiðréttar. Samfélagið verður að lokum gegnsósa af villandi og fordómafullum málflutningi og rasískar og meiðandi skoðanir verða ofan á. Enginn veit hvað er satt og rétt en allir hafa á tilfinningunni að innflytjendavandinn sé stórkostlegur. Og til að bregðast við því þarf að kjósa flokka sem eru óhræddir að taka á “vandanum”. En vandinn sem á að taka á er oftar en ekki moðreykur.

bönd

Öll erum við samsett úr ólíkum þráðum.

Vissulega er þó vandi á höndum – vandi innflytjenda. Hann er hins vegar ekki fólginn í þeim sjálfum heldur fordómafullu og rasísku fólki sem vill koma í veg fyrir sjálfsögð mannréttindi tiltekinna hópa með ýmsum leiðum. Því mætti segja að „innflytjendavandinn“ á Íslandi felist í fólkinu sem treystir sér ekki til að bjóða aðkomufólkið velkomið. Vandi innflytjenda eru m.a. þeir sem mæta öllu útlendu með harðlæstum huga og telja þá vera byrði frekar en blessun. Vandinn er fólginn í þeim sem sjá sér hag í að mála skrattann á vegginn og draga upp hryllingsmyndir af fólki sem óskar eftir að flytja hingað af ýmsum ástæðum.

Auðvitað eru ekki allir svona en einn maður með rasískar skoðanir er einum manni of mikið. Staðreyndir málsins eru nefnilega þær að íslenskt samfélag væri ekki eins og það er í dag nema af því að hingað hefur flutt fólk víða að. Lífsgæði okkar hafa aukist vegna innflytjenda bæði menningarlega og efnahagslega. Af nýlegri viðhorfskönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Fjölmenningarseturs um innflytjendur á Íslandi má draga þá ályktun að innflytjendur leggi meira til samfélagsins en þeir fá til baka. Yfir helmingur þeirra sem hingað flytur er með háskólamenntun eða iðnmenntun og notar félagslega kerfið og heilbrigðiskerfið minna en okkur er talið trú um af misvel upplýstum mönnum.

Það er nefnilega þannig að margbreytileiki samfélaga er styrkur þeirra. Við eigum ekki að hlusta á rasíska tilburði misgáfaðra framámanna í stjórnmálum og láta þá blekkja okkur og hræða til þess eins lokka til sín rasistaatkvæðin. Það er engin ástæða til að óttast innflutning fólks til Íslands. Þvert á móti eigum við að leggja okkur fram um að gera Ísland að eftirsóttum stað til að búa á og ýta undir að hér þrífist margmenning og fjölbreytni þar sem allir gera notið sín. Að því sögðu þá eigum við einnig að gera miklu betur í að taka á móti flóttafólki.

Greinin birtist í Kjallara DV 11. nóvember 2014