Unga fólkið og spurningarnar

Fór á sunnudaginn á fund hjá UVG og sat þar, ásamt meðframbjóðendum mínum í oddvitasætið, undir svörum. Ungliðarnir höfðu undirbúið tíu spurningar þar sem hver og einn fékk eina mínútu til að svara. Fyrsta spurningin var um sjálfa mig og ég sleppi henni í þessari upptalningu.  Auðvitað var hægt að hafa mikið lengra mál um hvern og einn lið og ræða hann í ræmur – en í þessu fólst líka sú glíma að kjarna áherslur sínar. Það var skemmtilegt.  Ég birti hér svör mín og spurningarnar fyrir þá ungliða sem misstu af – og auðvitað alla hina líka. Munið að þetta eru mínútusvör!

1. Af hverju, sem kjósandi í Reykjavík, ætti ég að kjósa þig?

Af því að þú getur það! Þeir Kópavogsbúar sem ég þekki eru t.d. mjög svekktir yfir því að fá ekki kjósa mig. En að öllu gamni slepptu þá er það vegna þess að ég er góður málsvari Vinstri grænna – ég er í góðu sambandi við félagsmenn og ég held að ég geti höfðað til breiðs hóps kjósenda og aukið fylgi okkar sem hefur vart bifast í skoðanakönnunum. Ég tel að ég geti komið áherslum okkar greiðlega til skila, rifið upp starfið og málefnavinnuna og gert alla káta.

2. Hvaða hugmyndir hefur þú til að bæta leigumarkaðinn í borginni?

Ég tel að Reykjavíkurborg eigi að einbeita sér að lögbundnu hlutverki sínu – grunnþjónustunni – og tæma biðlistana eftir félagslegu húsnæði. Þannig minnkar eftirspurn á markaðinum og leiguverð lækkar. Síðan ætti Reykjavíkurborg að reyna að stýra og hafa eftirlit með markaðinum í gegnum skipulag sitt t.d. með því að skilyrða lóðaúthlutun við byggingu íbúða sem tilfinnanlega skortir á markaði hverju sinni. Ég hef efasemdir um að borgin eigi að fara á almennan leigumarkað, hins vegar finnst mér tímabært að endurskoða úthlutunarreglur fyrir félagslegar íbúðir og hækka húsaleigubætur.

**3. Hver er þín framtíðarsýn fyrir Vatnsmýrina? Á flugvöllurinn að vera þar? Ef ekki, hvert á hann að fara? **

Ég óttast svo sem ekki að flugvöllurinn fari heldur óttast ég það sem gæti komið í staðinn fyrir hann. Skipulagsslysin verða ekki aftur tekin. Það verður hins vegar að ríkja sátt um flugvöllinn og ég held að það sé framtíðarmúsík að hann fari. Við verðum að gefa okkur góðan tíma til að skoða alla kosti. Það verður að hafa landsbyggðina með eins og íbúa Reykjavíkur. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort það væri ekki ráð að færa flugvöllinn yfir á Álftanes og svo Suðurgötuna yfir – en það er auðvitað óábyrgt tal því ég veit ekkert hvernig veðurskilyrðin eru þar, jarðvegur eða annað sem þarf að vera í lagi svo flugvöllur geti risið.

**4. Hvað getur Reykjavíkurborg gert til að bæta stöðu minnihlutahópa?

** Þarfir minnihlutahópa eru ólíkar og þeir eru auðvitað ekki allir undir einum hatti. Þannig er ekki hægt að búa til eitt skabalón. Öll þjónusta verður að vera einstaklingsmiðuð. Sem dæmi má nefna hælisleitendur og flóttamenn og börn og fullorðið fólk af erlendu bergi brotið. Nú hefur Rvk.borg og ríkið gert með sér tilraunasamning um að taka við hælisleitendum. Það þykir mér gott og þarft skref. Ég hef síðan talað fyrir því að börn af erlendum uppruna fái kennslu á sínu móðurmáli í skólum og hvort það sé ekki hægt að ráða erlenda kennara sem hingað flytja til að kenna í skólum. Einn minnihlutahópur sem hægt væri að nefna er t.d. utangarðsfólk en í þeim málaflokki getur borgin beitt sér markvisst í að fjölga úrræðum og húsaskjóli.

5. Getur VG, sem femínískur flokkur, tekið þátt í því að engin kona leiði lista í borgarstjórnarkosningum?

Nei – af því að femínismi snýr að því að laga skekkjuna í samfélaginu og ekki bara í eigin ranni. Vinstri græn hafa þannig beitt sér fyrir því að jafna hlut kvenna yfirhöfuð og ekki bara hjá sjálfum sér. Hitt er svo annað mál að ef þessu væri jafnt skipt á listum sem bjóða fram í borginni núna, þá myndi ég alveg vilja sjá femínískan karl í fyrsta sæti.

**6. Hver er þín framtíðarsýn í samgöngumálum?

** Þétting byggðar skiptir miklu máli í að bæta almenningssamgöngur. Varðandi strætó þá held ég að það sé gott ráð að stilla verðinu í hóf og þá sér í lagi fyrir stúdenta og atvinnulausa. Þá fjölgar þeim sem nýta vagnin, ferðum fjölgar, áætlunin verður betri m.a. vegna aðhalds margra og þar fram eftir götum. Það dýrasta við strætó er þegar hann keyrir langar vegalengdir milli hverfa með tóma vagna. Ég sé líka fyrir mér léttlestakerfi í Reykjavík – betri og markvissari hjólastíga – en borgin er með ágætis áætlun í þeim efnum og svo væri auðvitað frábært að fá hraðlest til Keflavíkur einhvern tímann í framtíðinni. Við þurfum líka að huga að rafbílavæðingu og hvernig við getum minnkað og að lokum hætt notkun jarðefnaeldsneytis.

**7. Á að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu?

** Ef sveitarfélög vilja sameinast þá er það mér að meinalausu. Mér finnst alltaf varhugavert að þvinga fram sameiningar. Varðandi höfuðborgarsvæðið þá velti ég því fyrir mér hvers vegna þau ættu að sameinast? Hafa þau ekki náð ákveðinni stærðarhagkvæmni eins og þau eru? Ég tel að samvinna sé t.d. betri og lögin gera ráð fyrir því að þau geti unnið vel saman. Ég held að sameining í eitt stórt sveitarfélag vinni gegn markmiðum um aukið íbúalýðræð. Fjárhagslegur ávinningur er líka sýnd veiði en ekki gefin. Þetta gæti orðið til þess að boðleiðir lengjast, millistjórnendum fjölgi og íbúar fjarlægist nærumhverfi sitt og hafi minni áhrif á það.

**8. Hvað finnst þér um aukið vægi embættismanna í borginni?

** Það er ekki hlutverk embættismanna að vera stefnumótandi. Þegar öllu er á botninn hvolft er það pólitíkin sem ber ábyrgð og því þarf hún að axla hana og taka ákvarðanir. Í fyrra kom út skýrsla sem sagði okkur að stjórnmálamenn gengju inn í hlutverk embættismanna og hefðu misst sjónar á sínu eigin hlutverki. Þetta á við um bæði kjörna fulltrúa og borgarstjóra. Kjörnir fulltrúar voru t.d. gagnrýndir fyrir að þekkja ekki lög og reglugerðir og samþykktir sem þeim ber að starfa eftir, hafa ekki eftirlit með stjórnsýslunni og fyrirtækjum og ganga inn í störf embættismanna. Þetta þarf að laga. Ramminn þarf að vera skýr og leikreglur aðgengilegar – annars bitnar það bara á borgarbúum sem fá of seina málsmeðferð eða það er brotið á þeim á annan hátt t.d. með því að hunsa jafnræðisreglur og stjórnsýslureglur.

**9. Hvaða hugmyndir hefur þú um meirihlutasamstarf við aðra flokka eða hreyfingar?

** Við vinnum best með félagshyggjuflokkum. Sjálfstæðisflokkurinn er okkur afar fjarri. Hins vegar eru sveitarstjórnir fjölskipað stjórnvald og auðvitað væri best ef við gætum starfað saman í nokkurri sátt. Ég held að það sé tómt mál að tala um að starfa með flokkum sem hafa ekki jafnrétti, kvenfrelsi, umhverfisvernd, félagslegt réttlæti, manngæsku og jöfnuð í fyrirrúmi.

uvgpallbordoddvitar