Banabiti íslenskrar velferðar?
Í einhverri kosningabaráttu var ónefndur flokkur sem hélt því fram að traust efnahagsstjórnun væri stærsta velferðarmálið. Undir þá fullyrðingu er vel hægt að taka. Ef velferðarkerfið fær litla eða enga fjárveitingu þá sveltur málaflokkurinn og það snertir okkur öll. Pólitísk forgangsröðun ræður síðan mestu um, hversu hátt málaflokknum er gert undir höfði. Nú kom þing saman og fjármálaráðherra lagði fram fjármálafrumvarp. Margir áttu von á tíðindum þar sem ný ríkisstjórn hefur þótt heldur verklítil. Sumir héldu að allir kraftar hennar færu kannski í að gera fjárlagafrumvarpið sem best úr garði. Það reyndist misskilningur eins og svo margt annað tengt þessari stjórn.
Þótt haldið sé áfram með mörg af verkum fyrri ríkisstjórnar er sveigt hraustlega af brautinni. Þannig er hætt við ýmis brýn mál á borð við lengingu fæðingarorlofs, byggingu húss íslenskra fræða og styrki til ýmissa nýsköpunarverkefna sem skotið hefðu stoðum undir íslenskt atvinnulíf. Þau verkefni sem hægristjórnin hefur slegið af eru flest þess eðlis að þeim hefði mátt halda áfram ef ekki hefði verið horfið frá auðlindagjaldi í sjávarútvegi og auðlegðarskattur framlengdur. Tekjurnar af þessum skattstofnum voru verulegar og rýmkuðu möguleika ríkisins á að efla atvinnulífið og styrkja alla velferðarþjónustu. Hins vegar má núverandi ríkisstjórn eiga það að sumu er haldið til haga eins og framhaldi af tímabundnum bótagreiðslum sem fyrri ríkisstjórn kom á. Fjármálaráðherra hefur sagt að meginmarkmið ríkisstjórnarinnar sé að ná jöfnuði á rekstri ríkissjóðs. Miðað við fjárlagafrumvarpið verður afgangurinn hálfur milljarður. Það er hins vegar sýnd veiði en ekki gefin. Þau eru ófá fjárlagafrumvörpin sem hafa lofað afgangi án þess að niðurstaðan hafi orðið sú þegar upp var staðið. Þegar við blasa áríðandi verkefni eins og t.d. vandi heilbrigðiskerfisins, hefði verið lofsverðara að einsetja sér frekar að skila á núlli og nýta allt tiltækt fé til samfélagsuppbyggingar og í þágu almennings.
En stefnan er skýr. Velferðin er ekki á dagskrá. Nú er það svo að að Íslendingar veigra sér umfram aðrar Norðurlandaþjóðir við að nota heilbrigðiskerfið, ekki síst vegna kostnaðar. Sumir leita ekki til læknis fyrr en útséð er með að sjúkdómarnir sem hrjá þá gangi yfir af sjálfu sér. Þeir sem þurfa að spara við sig læknisheimsókn hafa varla efni á spítalavist þegar vanrækti sjúkdómurinn er kominn á hættulegt stig. Kannski verður ástandið hér eins og víða í Bandaríkjunum, að góðgerðasamtök bjóða fátækustu þegnunum upp á ókeypis læknishjálp þótt ég vilji ekki trúa því að hægristjórnin stefni meðvitað að því hróplega misrétti innan samfélagsins.
Fjárlögin sem ríkisstjórnin lagði fram spegla fyrst og fremst algjört skeytingar- og skilningsleysi á aðstæðum þorra alþýðu. Í þeim er þrengt að menntun og námsmönnum, nýsköpun og rannsóknum, heilbrigði og framtíð okkar allra. Enn frekari vandamál eiga eftir að hrannast upp þar sem dregið hefur verið úr hvers kyns stuðningi sem skilaði sér síðan aftur með betra samfélagi. Þingmanna bíður nú hið erfiða verkefni að berja í þessa bresti áður en fjárlögin verða endanlega afgreidd. Það verður þó ekki þannig að “traust efnahagsstjórn” verði banabiti velferðarinnar á Íslandi?
Birtist í DV 4. október 2013