19. júní
Háttvirtu áheyrendur!
Þótt ég standi hér, er það eigi fyrir þá sök, að ég þykist færari en aðrar konur til að taka fyrir umtalsefni eina hlið af þessu mikla áhuga- og velferðarmáli voru: um hagi og réttindi kvenna, heldur vegna þess, að ég vil að einhver af oss konum hreyfi við því. Og fyrst engin af hinum menntuðustu konum vorum hefir tekið það opinberlega til umtals, hætti ég á að rjúfa þögnina í þeirri von að það geti orðið til þess að einhverjar konur, sem mér eru færari til að takast á hendur framsögu máls þessa, finni hjá sér köllun til að skýra það betur fyrir almenningi en ég fæ gjört. Ég veit að ég tekst mikið í fang, en ég vænti umburðarlyndis ykkar.
Svona hefst fyrirlestur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur um hagi og réttindi kvenna sem hún hélt í Reykjavík í Góðtemplarahúsinu 30. desember 1887. „Fyrirlestur haldinn af kvenmanni,“ var fyrirsögn í einu blaðinu og þótti mikil tíðindi, því þetta var fyrsti opinberi fyrirlestur konu á Íslandi. Í dag stend ég hér og fer með orð baráttukonunar sem við heiðrum í dag – og get naumast ímyndað mér hvílíks hugrekkis það hefur krafist fyrir 19. aldar konu að stíga fram opinberlega og rjúfa þögnina um kúgun kvenna. Við nútímafólkið eigum erfitt með að gera okkur grein fyrir því hvaða kjark og þrek það þurfti til þess að brjóta á móti almennum venjum á tímum þar sem þröngsýni og íhaldssemi réði ríkjum. Ein lítil vísbending um það var umfjöllun blaðanna á þessum tíma, því þótt fyrirlestur Bríetar hafi mælst vel fyrir þótti einna fréttnæmast að kona skuli hafa haldið hann.
Ég get hins vegar tekið undir hennar hógværu upphafsorð um að ég þykist ekki hæfari öðrum konum til þess að mæla hér þegar við heiðrum minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Það er mér aftur á móti mikill heiður að fá að gera það. Ekki hvað síst vegna þess að ég er þakklát þeim konum sem hafa staðið í framvarðasveit kvennabarátunnar í gegnum tíðina. Við eigum öll svo ótal mörgum konum svo mikið að þakka fyrir að hafa bætt og auðgað samfélag okkar með baráttu sinni.
Hógværðin sem mér finnst einkenna textann sem ég vitnaði í finnst mér ekki oft eiga upp á pallborðið í samtímanum. Í sjálfu sér hef ég ekki miklar áhyggjur af því. Það var ekki hógværðin sem færði okkur árangur í réttindabaráttu kvenna heldur önnur gildi og aðrir eiginleikar.
Á Íslandi hefur okkur tekist að breyta verulega samfélaginu þannig að ekki eru lengur neinir stórkostlegir annmarkar á réttindum kvenna lagalega séð. Með öðrum orðum hefur formlegu lagalegu jafnrétti í meginatriðum verið náð þó sitthvað sé eftir. Við þurfum þó enn að berjast svo ná megi fram eiginlegu jafnrétti, það er að kynin verði jöfn í reynd.
Svo er ekki alls staðar. Alltof víða í heiminum eiga konur og börn enn undir högg að sækja. Þar hafa ekki átt sér stað þær samfélagsbreytingar sem verða við jafnrétti kvenna og karla. Ekki þarf að leita lengra en til Bandaríkjanna þar sem réttur kvenna yfir eigin líkama er ennþá með stærstu átakamálum stjórnmálanna.
Gagnvart aðstæðum í öðrum löndum upplifir maður sig oft vanmáttugan. Þar virðist oft við ramman reip að draga og sjálfsagt er erfitt fyrir okkur á Íslandi að breyta öllum heiminum. Þó að okkar viðfangsefni séu önnur þá eru þau vissulega ærin. Við viljum ganga enn lengra í að bæta stöðu kvenna og tryggja fullt jafnrétti en við þurfum líka útvíkka baráttuna. Viðfangsefnin virðast stundum ótæmandi og með síbreytilegu samfélagi koma nýjar áskoranir.
Auðvitað eigum við alltaf að láta gott af okkur leiða í samfélagi þjóðanna. Við eigum að taka þátt í samstarfi og samtali við önnur ríki um gildi jafnréttis og mikilvægi þess. Það mun vera fastur liður þegar fulltrúar ríkja heims tala við kínversk stjórnvöld að gera athugasemdir við stöðu mannréttindamála. Er það vel. Við getum hins vegar gert svo miklu oftar athugasemdir og bent á það sem betur má fara í jafnréttismálum annarra ríkja.
Rétt eins og Bríet hafði hugrekkið til þess að hefja fyrst kvenna upp raust sína um stöðu kvenna á Íslandi þá eigum við að hafa hugrekkið til þess að gera það sama hvar sem við sjáum að úrbóta er þörf, bæði í okkar landi og annars staðar.
Þótt Bríet sé í okkar huga táknmynd kvenfrelsisbaráttunnar á Íslandi þá var hún auðvitað ekki ein á ferð. Brautryðjendur eru mikilvægir en það er fyrst og fremst samtakamátturinn sem skilar okkur árangri. Það er mikilvægt að sem flestir, bæði karlar og konur, láti sig jafnréttismál varða því oft veltir lítil þúfa þungu hlassi og margar þúfur hljóta þá að velta mörgum hlössum. Við eigum fjölmargar ungar konur og unga karla sem hafa stigið fram og sagt sögu sína eða lýst yfir sannfæringu sinni og lagt með því lóð á vogarskálar jafnréttis. Til þess þarf ekki minni kjark en Bríet bjó yfir, því fordómarnir leynast enn víða.
Einhvern tímann var mér sagt að byltingin byrji heima og það má vissulega til sanns vegar færa, að minnsta kosti í jafnréttismálum. Það á að vera sjálfsagður hlutur í uppvexti barna okkar að kynin séu jöfn og njóti sömu tækifæra. Með því móti vex upp kynslóð sem lætur ekki fordóma og gamlar grillur aftra sér og er óhrædd við að láta í sér heyra í baráttu gegn óréttlæti.
Bríet skrifaði kornung grein um menntun og réttindi kvenna og sagði þar að eins og það væri „hin fyrsta skylda foreldranna, að vekja tilfinningu hjá börnunum fyrir öllu fögru, sönnu og góðu“ væri það líka skylda þeirra að vekja hjá börnunum „þá sjálfstæðis og sóma tilfinningu […] að ekki hæfi neinum að liggja á liði sínu“.
Þessi hvatningarorð eiga vel við enn í dag. Liggjum ekki á liði okkar í baráttunni fyrir betra og réttlátara þjóðfélagi og heimi, fyrir öllu fögru, sönnu og góðu. Þannig minnumst við best Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og allra kvenna og karla fyrr og síðar sem tóku þátt í hennar og annarra góðu baráttu fyrir jafnrétti okkar allra.