Hátíðarræða í Hólavallakirkjugarði
Það er árviss viðburður 17. júní að leggja blómsveig á leiði heiðurshjónanna sem hvíla hér, Ingibjargar Einarsdóttur og Jóns Sigurðssonar sem Íslendingar völdu sem táknmynd sjálfstæðisbaráttu sinnar á 19. öld. Jón ber viðurnefnið forseti, því hann var forseti Hins íslenska bókmenntafélags, og það er ef til vill táknrænt fyrir viðhorf þeirra landa okkar sem lýstu yfir nýju lýðveldi að velja einmitt orðsins mann sem þjóðhetju, því sjálfstæði okkar vannst ekki með vopnum og blóði heldur fyrst og fremst orðum. Framlag Jóns í þeim slag var mikið og merkt og því er vel við hæfi að við heiðrum hann enn þann dag í dag, með blómum og orðum.
Frá dauða Jóns 1879 til endurreisnar lýðveldisins Ísland 17. júní 1944 rann mikið vatn til sjávar og margir lögðu þar hönd á plóg. Þeim fækkar óðum sem muna þennan merkisdag og yngri kynslóðir eiga ekki alltaf auðvelt með að setja sig í spor þeirra sem bjuggu hér áður en við urðum sjálfstæð þjóð. Lýðveldið var orðið 30 ára þegar ég fæddist og samfélagsumræðan á uppvaxtarárum mínum snerist ekki um sambandið við Dani heldur miklu frekar kalda stríðið, hippisma, diskó og annað sem börnin mín þekkja varla eða alls ekki nema af afspurn. Tíminn líður, áherslur og hugðarefni breytast og sagan heldur áfram. Ég held samt að mér sé óhætt að fullyrða að við séum öll, sem búum á þessu landi, sammála um að skrefið sem stigið var á Þingvöllum 17. júní 1944 hafi verið rétt og mikilvægt. Ég held að við berum öll sjálfstæði þjóðarinnar fyrir brjósti og að okkur sé annt um það, ekki síður en Jóni Sigurðssyni og félögum hans. Það er svo komið í okkar hlut sem hér búum að varðveita þetta sjálfstæði og nýta það til góðs.
Sjálfstæði þjóðar – rétt eins og mennska okkar sjálfra – er stöðug áskorun. Stundum pusar á bátinn og það þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Við megum ekki skirrast við það. Lýðræði fylgja skyldur og þegnarnir þurfa að taka virkan þátt í stjórn sameiginlegra mála, beint eða óbeint. Lýðveldið okkar er á ábyrgð okkar allra og í sameiningu getum við byggt það samfélag sem við viljum eiga á grunninum sem forfeður og formæður okkar lögðu. Við erum ef til vill „fá og smá“ í samanburði við stórveldi og milljónaþjóðir en einmitt þess vegna þurfum við að gæta vel að sjálfstæði okkar og tungumálinu, sem sjálfstæðishetjurnar okkar vissu að var einn mikilvægasti þátturinn í því.
Eitt af því sem sjálfstæðið færði okkur var möguleiki á sjálfstæðri utanríkisstefnu. Ísland hefur notið þess að vera „svo langt frá heimsins vígaslóð“. Við höfum borið gæfu til þess að vera hlutlaus í ótal stríðum en því miður einnig þátttakendur, eða kannski frekar í klappliðinu, í alltof mörgum. Auðvitað er sjálfstæði ekki sjálfsagt, hvorki Íslands né annarra ríkja, og í heiminum sem við búum í stöndum við frammi fyrir margvíslegum ógnum sem margar krefjast meiri og dýpri samvinnu ríkja en þekkst hefur í veraldarsögunni.
Slík samstaða hefur oft á tíðum náðst á sviði verslunar og viðskipta en alltof sjaldan á sviði umhverfisverndar og mannréttinda. Það er á slíkum sviðum sem Ísland á erindi og hefur tækifæri til að gera sig gildandi í samfélagi þjóðanna.
Ekki svo að skilja að það sé markmið í sjálfu sér að gera sig gildandi. En sjálfstæði Íslands hefur lítið gildi ef við getum ekki notað það til að skapa aukna velferð þeirra sem hér búa og láta gott af okkur leiða í heiminum. Við erum friðsæl þjóð sem hefur hlotið það í arf að berjast með orðum og rökum frekar en vopnum. Förum að fordæmi Jóns forseta og nýtum okkur það til góðs.
Kæru gestir, gleðilegan þjóðhátíðardag.