Vangavelta um lestur og læsi

Mágkona mín er grunnskólakennari að mennt. Áður en hún flutti til Íslands kenndi hún yngstu bekkjum í Danmörku. Eitt árið voru mörg börn af erlendum uppruna í bekk hjá henni. Þetta var 2. bekkur. Við lok hans var lagt fyrir stöðupróf í lestri. Aðeins nokkur börn höfðu tök á því að lesa samfelldan texta sér til gagns. Hún tók niðurstöðurnar nærri sér og fannst eins og hún hefði ekki staðið sig sem kennari þeirra. Samkennari hennar var hins vegar á öðru máli. Hann hughreysti hana og benti henni á að bekkurinn hefði náð stórkostlegum framförum í félagsfærni, samskiptum á dönsku, myndmennt, útiveru, söng og vináttu. Þetta var góður bekkur og nemendur höfðu sterka og góða sjálfsmynd, voru forvitnir og kátir. Lestrarkunnáttan kæmi … bara aðeins seinna en krafist var. Nemendur hennar lásu líka myndabækur og það var lesið fyrir þá. Þeir nutu þess. Samkennarinn hafði engar áhyggjur. Með þessu frjóa og hvetjandi námsumhverfi sem mágkona mín hafði skapað þá ætti lestrarprófið bara að vera viðmiðunartæki – enda mældi það bara afmarkaðan þátt af því sem færi fram í kennslustofunni.

Og þannig er það.

Lestrarskimun er verkfæri kennara til að sjá hvar börnin standa í lestri. Læsiskunnátta þeirra er ekki mæld. Aðeins hefðbundin lestrarkunnátta. Það er misjafnt hvernig börn þroskast og hvernig þau læra að lesa. Lestrarskimunarpróf í 2. bekk geta gefið vísbendingar um lestrartregðu eða lesblindu en ætti ekki að vera afmarkaður mælikvarði þegar við ræðum um lestur og læsi barna. Ofuráhersla á að börn eigi að vera fluglæs fyrir tiltekinn aldur er ekki vænlegt markmið. Við þurfum að hlusta á börn og hvetja þau, lesa fyrir þau myndabækur og textabækur og þroska með þeim heilbrigt viðhorf til lesturs. Foreldrar þurfa að vera duglegir að lesa með börnum og fyrir börn og þeir þurfa að vera þeim fyrirmynd.

Þó lestrarkunnátta sé undirstaða náms og mikilvægt að börn geti lesið sér til gagns þá þýðir ekkert að örvænta þó 63% barna geti lesið sér til gagns við lok 2. bekkjar í Reykjavík í dag. Hin 37% munu eflaust ná sér eflaust á strik við lok 3. bekkjar – samkvæmt stöðlum. Það sem er fyrir mestu er að þeim líði vel í skólanum, eigi vini og fái tækifæri til að þjálfa félagsfærni sína og hæfileika á sínum forsendum. Hitt kemur þá áður en við vitum af.

1017