Forval Vg til borgarstjórnarkosninganna

Ég hafði gengið lengi með það í maganum að taka þátt í borgarpólitíkinni. Á nýju ári gerði ég upp hug minn og ákvað að gefa kost á mér í forval Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs til borgarstjórnarkosninganna. Á mánudaginn sendi ég svo frá mér fréttatilkynningu þess efnis. Þar sem þetta blogg verður tileinkað þeirri baráttu og svo síðar meir málefnum sem snerta borgina (vonandi) er viðeigandi að birta fréttatilkynninguna hér í heild. Vonandi hafa lesendur gagn og gaman af lestrinum.

Fréttatilkynning 11. janúar 2010

Líf Magneudóttir gefur kost á sér í forval Vinstri grænna til borgarstjórnarkosninganna í vor og sækist hún eftir 2. sæti á lista. Hún hefur verið flokksbundin frá árinu 2004 og stutt flokkinn frá upphafi. Á tímum efnahagslegs samdráttar og ólgu í samfélaginu vill hún vernda uppeldis- og menntakerfi borgarinnar og umfram allt tryggja velferð barna og ungmenna, svo þau verði sem best í stakk búin til að byggja upp samfélag framtíðarinnar.

Niðurskurður má ekki bitna á börnum og ungmennum

Stjórnmál eiga að einkennast af heiðarleika, hreinskiptni og réttsýni, að mati Lífar. Hún telur að í lýðræðisríki beri stjórnmálamönnum að svara kalli kjósenda en jafnframt að koma fram stefnumálum sínum af kappsemi, festu og skynsemi. Þegar skórinn kreppir reynir á getu stjórnmálamanna. Þá er nauðsynlegt að huga að þeim hópum sem eiga undir högg að sækja í þjóðfélaginu.

Sérstaklega þarf að hlúa að hagsmunum barna og ungmenna. Fyrir liggur að kreppur geta haft afar neikvæð áhrif á sálarlíf barna. Víst er að niðurskurður ýmissa sveitarfélaga á framlögum til mennta- og uppeldismála kemur niður á þjónustu þessara dýrmætu íbúa sem enn hafa ekki fengið kosningarétt eða rödd í samfélaginu. Þá þarf að vernda. Til þess þarf að efla frekar grunn- og leikskóla og þá þjónustu sem snýr að börnum almennt. Það kann að vera að hagræðing sé óumflýjanleg á þessu sviði, en hún ætti ekki að bitna á gæðum eða umfangi menntunar.

Efnaleg misskiptingin hefur orðið til vegna stefnu undangenginna ríkisstjórna. Fjöldi fólks hefur orðið fyrir tekjumissi vegna atvinnuleysis og niðurskurðar í opinbera kerfinu og hafa fjölmargir lent í vanda vegna þess. Þeim þarf að veita stuðning með öllum tiltækum ráðum.

Borgin er ekkert án fólksins

Öllu þessu þarf borgin að sinna. Því er nauðsynlegt að stjórnkerfið vinni sem einn maður og lífræn heild þar sem samfella og skipulag eru höfð í fyrirrúmi. Stjórnkerfi borgarinnar þarf í senn að vera einfalt og í góðu sambandi við borgarana þar sem boðleiðir eru stuttar og upplýsingar aðgengilegar.

Töfrar borga endurspeglast í mannlífinu sem þar fær að blómstra og eru það m.a. borgaryfirvöld sem greiða götuna fyrir því. Svo borgir megi verða það athvarf sem þeim er ætlað að vera, verður að hugsa um þróun þeirra á heildstæðan hátt. Þar eiga allir að geta fundið sér athvarf til að þroskast, mennta sig, starfa, lifa og deyja.

Um Líf

Líf Magneudóttir er 35 ára gömul, tveggja barna móðir og búsett í vesturbæ Reykjavíkur. Hún er menntaður grunnskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands en starfar sem vefstjóri hjá Sambandi íslenskra sparisjóða og Sparisjóðnum. Einnig leggur hún stund á M.paed. nám í íslensku við Háskóla Íslands. Þá hefur hún starfað á fréttastofu sjónvarps sem þýðandi frá árinu 1999.